Masónít
Masónít (eftir vörumerkinu Masonite) er unninn viður sem framleiddur er með aðferð Masons, sem er aðferð til að tæta við með gufu þannig að úr verði langar viðartrefjar. Aðferðina fann William H. Mason, yfirverkfræðingur hjá Thomas Alva Edison, upp þegar hann var að leita leiða til að framleiða pappír úr viðarkurli. Viðartrefjarnar eru pressaðar saman í plötur við hita. Ekkert lím er notað þar sem plöturnar límast saman með náttúrulegu tréni úr viðnum. Vegna þess hversu langar trefjarnar eru þola masónítplötur vel að svigna og þola einnig vel tog. Masónít er mjög stöðugt („dautt“) efni og verpist hvorki né rýrnar með tímanum.
Masónít var fundið upp árið 1924 og fjöldaframleiðsla hófst 1929. Framan af 20. öldinni var það mikið notað í klæðningar á veggi og loft innanhúss, í báta o.s.frv. en vinsældir þess hafa dvínað mjög á síðustu áratugum um leið og önnur efni, eins og t.d. MDF hafa rutt sér til rúms. Masónít er þó enn notað til að smíða líkön og einnig notar myndlistarfólk það, svo eitthvað sé nefnt.