Fara í innihald

Trefjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Trefjar eru flokkur efna þar sem samfelldir þræðir eða lengjur eru vafðar saman til að mynda lengri þræði eins og í prjónagarni. Trefjar eru mikilvægar í lífeðlisfræði jurta og dýra, þær halda lífrænum vefjum saman. Mannkynið notar trefjar á ýmsan hátt, spunnið er úr trefjum, gerð úr þeim reipi og ýmis efni eru styrkt með trefjum eins og pappír og flóki. Trefjar eru oft notaðar sem hráefni til að framleiða önnur efni. Trefjar úr gerviefnum eru ódýrari í framleiðslu en náttúrulegar trefjar og hægt að framleiða þær í miklu magni.

Náttúrulegar trefjar

[breyta | breyta frumkóða]

Náttúrulegar trefjar eru trefjar sem verða til í jurtum, dýrum og jarðfræðilegum ferlum. Náttúrulegar trefjar eyðast í náttúrunni. Þær má flokka eftir uppruna í:

  • jurtatrefjar
  • viðartrefjar
  • dýratrefjar
  • efnatrefjar


Jurtatrefjar í fæðu

[breyta | breyta frumkóða]

Jurtatrefjar í mat eru lítt meltanleg efni úr plönturíkinu. Flestar trefjar flokkast sem kolvetni en litla sem enga orku er hægt að fá úr trefjum. Trefjar eru samt mikilvægar heilsunni vegna þess að þær hjálpa til við útskilnað úrgangsefna úr meltingarfærum, bera óæskileg efni burt úr líkamanum og geta þannig dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og krabbameini. Þar að auki geta trefjar dregið úr löngun í mat. Trefjar eru annaðhvort vatnsleysanlegar eða óvatnsleysanlegar. Óvatnsleysanlegar trefjar koma að mestu leyti úr grænmeti, korni og hveiti. Gróft brauð og gróft pasta eru rík af trefjum. Neysla slíks matar flýtir fyrir ferð fæðunnar í gegnum þarma og eykur magn hægða. Vatnsleysanlegar trefjar má finna í baunum, linsubaunum, höfrum, byggi, rúgi og ávöxtum. Neysla þeirra tefur fyrir tæmingu magans og hægir á ferð fæðu í gegnum þarma, auk þess að lækka magn kólesteróls í blóði.

Vatnsleysanlegar og óvatnsleysanlegar trefjar eiga það sameiginlegt að hægja á niðurbroti sterkju og frásogi glúkósa í blóð svo blóðsykur helst jafnari, auk þess sem þarmagerlar melta þær. Við það myndast næringarefni sem líkaminn getur nýtt sér.

Óvatnsleysanlegar trefjar sjúga í sig vatn og bólgna upp í þörmum. Það auðveldar þarmahreyfingarnar og gerir þær reglulegri. Þannig virka óvatnsleysanlegar trefjar eins og hreinsiefni fyrir þarmana. Talið er að vatnsleysanlegar trefjar geti dregið úr magni kólesteróls í blóði og dregið úr hættu á ýmsum kvillum á borð við sykursýki, hjartasjúkdóma og krabbamein. Vatnsleysanlegar trefjar hægja á upptöku næringarefna úr meltingarvegi. Það leiðir til þess að svengdartilfinning gerir síður vart við sig eftir neyslu trefjaríkrar fæðu.

Virkni trefja í fæðu má þannig draga saman í sex lykilatriði:

  • Trefjar bæta meltingarstarfsemi líkamans
  • Trefjar eru nauðsynlegar fyrir heilbrigði meltingarvegar
  • Trefjar hægja á upptöku næringarefna úr meltingarvegi
  • Trefjarík fæða getur dregið úr hættunni á því að fá ýmiss konar kvilla, svo sem sykursýki, hjartasjúkdóma og krabbamein
  • Trefjar viðhalda góðri innvortis heilsu
  • Trefjar veita mettunartilfinningu og fyllingu

Samkvæmt upplýsingum frá Lýðheilsustöð er meðalneysla trefja á Íslandi langt undir ráðleggingum, ekki síst vegna lítillar neyslu grófs kornmetis, grænmetis og ávaxta.

Matvælafyrirtæki hafa í auknum mæli boðið ýmsar vörur með viðbættum trefjum.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.