Margrét Frímannsdóttir
Margrét Frímannsdóttir (f. 29. maí 1954 í Reykjavík) er íslenskur fyrrum stjórnmálamaður. Margrét sat á þingi frá 1987-2007, fyrst sem þingmaður Alþýðubandalagsins og síðar Samfylkingarinnar. Hún var formaður Alþýðubandalagsins frá 1995-1999 og talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum árið 1999 og varaformaður flokksins frá 2000-2003.
Nám og störf
[breyta | breyta frumkóða]Margrét lauk gagnfræða- og landsprófi frá Gagnfræðaskóla Selfoss og stundaði um tíma nám við öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún starfaði í Hraðfrystihúsi Stokkseyrar, við verslunarstörf og sem leiðbeinandi við Grunnskóla Stokkseyrar. Margrét var oddviti Stokkseyrarhrepps frá 1982-1990. Hún var kosin á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið í Suðurlandskjördæmi árið 1987 og sat á þingi fyrir flokkinn allar götur til ársins 1999 er hún var kosin á þing fyrir Samfylkinguna. Margrét gegndi þingmennsku til ársins 2007.[1] Í upphafi árs 2008 varð hún forstöðumaður fangelsisins að Litla-Hrauni og gengdi því starfi til ársins 2015.[2] Hún hefur unnið við garðyrkju síðustu ár. [3]
Annað
[breyta | breyta frumkóða]Ævisaga Margrétar, Stelpan frá Stokkseyri kom út árið 2006 en Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skrásetti. Margrét hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag árið 2019.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Alþingi, Æviágrip - Margrét Frímannsdóttir, (skoðað 8. maí 2019)
- ↑ Visir.is, „Margrét Frímannsdóttir hætt á Litla-Hrauni“, 23. nóvember 2015, (skoðað 8. maí 2019)
- ↑ Áhugamálið varð að vinnu Mbl.is, skoðað 15. janúar 2021
- ↑ Sunnlenska.is, „Margrét sæmd fálkaorðu“, 1. janúar 2019 (skoðað 8. maí 2019)