Fara í innihald

Marc Bloch

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Marc Bloch

Marc Léopold Benjamin Bloch (6. júlí 1886 – 16. júní 1944) var franskur sagnfræðingur og stofnandi sagnfræðitímaritsins Annales d'histoire économique et sociale ásamt Lucien Fevbre. Bloch er einn áhrifamesti sagnfræðingur Frakklands og átti þátt í því að breiða út áhrif franska sagnfræðiskólans um og út fyrir Evrópu. Bloch barðist í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni og hlaut bæði frönsku heiðursorðuna (Légion d'honneur) og stríðskrossinn (Croix de guerre) fyrir þjónustu sína. Eftir hernám nasista á Frakklandi gekk Bloch í frönsku andspyrnuna en var handsamaður af Gestapo-liðum og tekinn af lífi þann 16. júní 1944.

Marc Bloch var ættaður frá Alsace-héraði í austurhluta Frakklands. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í sagnfræði eftir nám í Berlín og Leipzig og gerðist kennari í háskóla í Montpellier. Hann var kvaddur í franska herinn þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út, reis þar fljótt til metorða og var sæmdur fjölda heiðursmerkja. Hann var orðinn höfuðsmaður í lok styrjaldarinnar en eftir hana hóf hann kennarastörf á ný og gerðist lektor í háskólanum í Strassborg.[1] Þar kynntist Bloch Lucien Fevbre og stofnaði árið 1929 með honum tímaritið Annales d'histoire économique et sociale eða Annálana. Bloch flutti til Parísar og gerðist þar prófessor í hagsögu í Sorbonne-háskóla árið 1936.[2]

Bloch var kvaddur í herinn á ný þegar seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939. Eftir að Frakkar voru sigraðir missti Bloch stöðu sína í Sorbonne-háskóla þar sem hann var gyðingur og þýska hernámsliðið og Vichy-stjórnin liðu ekki að gyðingar sinntu kennarastörfum í svo virtri stofnun.[3] Bloch fékk starf í háskólanum í Clermont-Ferrand en undi þar illa við og gekk að endingu til liðs við frönsku andspyrnuhreyfinguna í Lyon. Þýskir lögreglumenn tóku Bloch og hóp annarra andspyrnumanna höndum þann 8. júní 1944 og myrtu Bloch átta dögum síðar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bloch, Marc. Til varnar sagnfræðinni. Aðfaraorð eftir Guðmund J. Guðmundsson, bls. 7. Selfoss (2017).
  2. Til varnar sagnfræðinni, bls. 8.
  3. Til varnar sagnfræðinni, bls. 9.