María af Brabant
María af Brabant (13. maí 1254 – 10. janúar 1321) var hertogadóttir frá Brabant og drottning Frakklands frá 1275 til 1285, seinni kona Filippusar 3. Frakkakonungs.
María var dóttir Hinriks 3., hertoga af Brabant, og Adelaide af Búrgund, dóttur Húgós 4., hertoga af Búrgund. Hún giftist Filippusi 3. Frakkakonungi 24. júní 1275 en fyrri kona hans, Ísabella, hafði dáið fjórum árum áður og lét eftir sig þrjá syni. Filippus var veiklundaður og undir miklum áhrifum frá móður sinni, ekkjudrottningunni Margréti af Provence, og lækni sínum, Pierre de Brosse.
Elsti sonur Filippusar, Loðvík krónprins, lést 1276, ellefu ára gamall, og þótti allt benda til þess að honum hefði verið byrlað eitur. Var de Brosse fangelsaður og síðar tekinn af lífi en María drottning var grunuð um að hafa staðið á bak við verknaðinn og var það einkum tengdamóðir hennar sem ásakaði hana en Filippus virtist samsinna móður sinni. Ekkert var þó gert frekar í málinu og María ól manni sínum þrjú börn, þar á meðal Margréti, sem giftist Játvarði 1. og varð drottning Englands.
Eftir að Filippus dó 1285 og Filippus 4. stjúpsonur Maríu varð konungur helgaði hún sig uppeldi barna sinna, en settist að í klaustrinu Les Mureaux árið 1316 og dó þar fimm árum síðar.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Marie of Brabant, Queen of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. október 2010.