Mansjú
Mansjú manju gisun | ||
---|---|---|
Málsvæði | Mansjúría | |
Heimshluti | Kína | |
Fjöldi málhafa | 18 (2007)[1] | |
Skrifletur | Mansjúritmál | |
Tungumálakóðar | ||
ISO 639-2 | mnc
| |
ISO 639-3 | mnc
| |
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode. |
Mansjú ( ᠮᠠᠨᠵᡠ ᡤᡳᠰᡠᠨ manju gisun) er mansjú-túngískt mál í bráðri útrýmingarhættu sem talað er í Mansjúríu í Austur-Kína.
Mansjú var mál Mansjúa á fyrri tíð en veldi þeirra var mest eftir að þeir lögðu Kína undir sig á 17. öld. Keisaraætt Mansjúa, Qingættin, ríkti í Kína til 1912. Í rúmar tvær aldir var mansjúmálið opinbert mál í Kína og mikilvægt samskiptamál milli Kína og umheimsins. Allir embættismenn urðu að gangast undir próf í mansjú og allar keisaralegar tilskipanir og opinber skjöl voru rituð bæði á mansjú og kínversku. Á þessu tímabili voru mörg klassísk kínversk rit þýdd á mansjú og hafa þær þýðingar komið evrópskum fræðimönnum að gagni við túlkun fornra kínverskra rita.
Á 19. öld hnignaði málinu ört vegna áhrifa frá kínversku og kínverskri menningu þannig að nú er það talað af aðeins fáeinum mönnum í Norðaustur-Kína. Talið er að aðeins 18 málhafar mansjú séu enn á lífi en þeir eru allir áttræðir.[1]
Viðskeyti eru mikið notuð til orðbyggingar en sérhljóðasamræmi er ekki eins áberandi og til dæmis í mongólsku. Mansjú er ritað með sérstöku stafrófi sem lagað var eftir mongólsku stafrófi á 17. öld og á ekkert skylt við kínverska skrift.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Chinese Village Struggles to Save Dying Language“. Sótt 2017.