Möndulhalli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Möndulhalli eða öxulhalli er hornið á milli snúningsmönduls hlutar, til dæmis reikistjörnu, og sporbaugsmönduls hans eða hornið á milli miðbaugssléttu hlutarins og sporbaugssléttu hans. Jörðin hefur nú möndulhallann 23,4° en hann sveiflast frá 22° 02' 33" til 24° 30' 16" á 41.040 ára tímabili.

Möndulhallinn veldur því að norður- og suðurhvolf jarðarinnar fá mismikið sólarljós eftir árstímum sem veldur meiri árstíðamun nær heimskautunum en annars staðar. Þegar hásumar er á norðurhveli jarðar snýr norðurheimskautið á móti sólinni þannig að staðir norðan norðurheimskautsbaug eru baðaðir sólarljósi allan sólarhringinn á meðan suðurheimskautið snýr frá sólu þannig að staðir sunnan suðurheimskautsbaugsins sjá ekki til sólar.

Möndulhallar jarðar, Venusar og Úranusar bornir saman. Góð leið til að átta sig á því hvoru meginn norðurpóll reikistjarnanna liggur er að hugsa sér krepptan hnefa með útstæðum þumli. Þumallinn bendir í norður en hinir fingurnir stefna i snúningsátt reikistjörnunnar.

Möndulhalli annara reikistjarna en jarðarinnar er mjög misjafn. Möndulhalli Mars er um 25° eða áþekkur möndulhalla jarðar og því eiga sér stað kunnulegar árstíðabreytingar á Mars. Möndulhalli Venusar telst hins vegar vera 177° sem þýðir að norðurpóll hennar snýr í raun „öfugt“ miðað við aðrar reikistjörnur þar sem hún snýst í hina áttina. Annað afbrigði er Úranus sem hefur möndulhallann 97° og liggur því á hliðinni miðað við flestar aðrar reikistjörnur þar sem snúningsmöndull hans er nokkurn veginn samhliða sporbaugssléttu.