Mæðragarðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Mæðragarðurinn er garður í Lækjargötu í Reykjavík. Hann var gerður árið 1925 og var aðallega ætlaður mæðrum með ung börn. Garðurinn afmarkast af Lækjargötu í vestri, Bókhlöðustíg í norðri, lóð vestan við Laufásveg í austri og Miðbæjarskólanum í suðri. Þetta svæði tilheyrði áður Skálholtskoti sem var ein af hjáleigum Víkur. Bærinn Skálholtskot stóð á svæði milli húsa númer 13 og 17 við Laufásveg. Laufásvegur var upphaflega slóði að Skálholtskoti.

Styttan Móðurást eftir Nínu Sæmundsson var sett upp í Mæðragarðinum árið 1928. Þetta var fyrsta stytta á opinberum vettvangi sem ekki var minnismerki heldur listaverk. Móðurást stendur þar sem brunnurinn Skálholtslind eða Skálholtsbrunnur var áður. Mæðragarðurinn dregur nafn sitt af styttunni Móðurást en þarna var áður barnaleikvöllur sem kallaður var Útnorðurvöllur.

Árið 1950 var Lækjargata breikkuð og þá var garðurinn minnkaður mikið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]