Fara í innihald

Litla Ilíonskviða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Litla Ilíonskviða eða Ilíonskviða hin skemmri (forngríska: Ἰλιὰς μικρά, Ilias mikra; latína: Ilias parva) er glatað forngrískt söguljóð. Hún var eitt ljóðanna um Trójustríðið en einungis Ilíonskviða og Ódysseifskviða eru varðveittar. Litla Ilíonskviða hefst þar sem Eþíópíukviða skilur við og er eins konar framhald hennar en framhald Litlu Ilíonskviðu er að finna í kvæðinu Iliou persis („Fall Tróju“). Í fornöld var Litla Ilíonskviða ýmist eignuð Leskesi frá Pyrrhu, Kinæþoni frá Spörtu, Díodórosi rá Eryþræ eða Hómer. Kvæðið var í fjórum bókum undir sexliðahætti.

Litla Ilíonskviða var að líkindum samin á seinni hluta 7. aldar f.Kr. en um það ríkir mikil óvissa.

Þótt kvæðið sé glatað eru um þrjátíu línur varðviettar úr kvæðinu sjálfu en auk þess er varðveittur útdráttur úr efni hennar frá því í síðfornöld.

Kvæðið hófst á útbýtingu vopna Akkillesar, sem mesta hetjan meðal Grikkja átti að fá: um vopnin keppa Ajas Telamonsson og Ódysseifur, sem hlaut vopnin að lokum. Ajas gengur af göflunum og fremur að endingu sjálfsmorð.

Ódysseifur situr fyrir Helenosi og handsamar hann en Helenos spáir fyrir um hvernig Grikkir fái tekið Tróju. Ódysseifur og Díómedes halda til Lemnos til að sækja Fíloktetes, sem drepur París í bardaga. Helena giftist þá Deífóbosi. Ódysseifur sækir son Akkillesar, Neoptólemos og kemur með hann til Tróju, fær honum hervopn föður síns og vofa Akkillesar birtist honum. Neoptólemos vegur tróversku hetjuna Evrýpylos. Ódysseifur fer inn í Tróju, dulbúinn sem betlari. Helena ber kennsl á hann en þegir.

Gyðjan Aþena lætur Epeios smíða viðarhest og Grikkir koma bestu köppum sínum fyrir inni í hestinum, brenna búðir sínar og draga sig í hlé til eyjunnar Tenedos sem var skammt frá. Tróverjar halda að Grikkir séu á brott fyrir fullt og allt, rjúfa hluta borgarmúrsins og draga hestinn inn í borgina og fagna.

Ekki virðist fjallað um eyðileggingu Tróju í Litlu Ilíonskviðu en það er meginefni Iliou persis. Eigi að síður lýsir brot sem talið er vera út Litlu Ilíonskviðu hvernig Neoptolemos handsamar Andrómökku, ekkju Hektors, og drepur barnungan son þeirra, Astýanax, með því að henda honum fram af borgarveggnum.

  • „Hvar er talað um trójuhestinn og fall Tróju ef ekkert er fjallað um þetta í Ilíonskviðu?“. Vísindavefurinn.