Fara í innihald

Lissabon-sáttmálinn (2007)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lissabon-sáttmáli)
Merki Lissabon-sáttmálans

Lissabon-sáttmálinn (upphaflega kallaður endurskoðunarsáttmálinn) var alþjóðasamkomulag sem gerði breytingar á sáttmálunum tveimur sem leggja grunninn að stjórnkerfi Evrópusambandsins. Aðildarríki Evrópusambandsins skrifuðu undir Lissabon-sáttmálann þann 13. desember 2007 og hann tók gildi þann 1. desember 2009.[1] Í sáttmálanum eru breytingar gerðar á Maastrichtsáttmálanum (1993) og Rómarsáttmálanum (1957).

Breytingar í sáttmálanum

[breyta | breyta frumkóða]

Meðal breytinga sem gerðar voru með Lissabon-sáttmálanum var sú að í stað þess að þurfa samhljóða atkvæðastuðning á ráðherraráðinu þurfa ákvarðanir í 45 ákvarðanahópum nú aðeins tilsettan meirihluta til að ganga fram. Þessi meirihluti er svokallaður tvöfaldaður aukinn meirihluti, sem þýðir að til þess að tillaga nái fram að ganga þarf samþykki 55% aðildarríkja sem hafa að minnsta kosti 65% íbúa Evrópusambandsins. Minnihluti getur stöðvað framgang þessara mála ef ríkin í honum telja til sín yfir 35% af íbúafjölda sambandsins.[2]

Með sáttmálanum voru Evrópuþinginu veitt aukin völd. Evrópuþingið varð að öðrum handhafa löggjafarvaldsins ásamt evrópska ráðherraráðinu.[3] Jafnframt voru ýmsar breytingar gerðar á þingmannafjölda og hlutföllum þingmanna á Evrópuþinginu.[3]

Sáttmálinn leysti upp hinar þrjár stoðir Evrópusambandsins sem höfðu verið grunnurinn að stjórnkerfi ESB og steypti þeim saman. Evrópusambandið varð að einni, heilsteyptri lögpersónu sem telur nú til sín allar stofnanir sem áður heyrðu undir stoðirnar þrjár. Með afnámi stoðanna þriggja var Evrópubandalagið formlega leyst upp og sambandinu gert að „leysa [það] af hólmi og taka við hlutverki þess“.

Leiðtogar Evrópusambandsins í Lissabon eftir undirritun Lissabon-sáttmálans.

Með Lissabon-sáttmálanum varð forseti evrópska ráðsins að föstu embætti sem meðlimir ráðsins kjósa til tveggja og hálfs árs. Forseti evrópska ráðsins hafði áður verið leiðtogi þess ríkis sem fór með forsæti í ráðherraráðinu en eftir gildistöku sáttmálans varð Herman Van Rompuy hinn fyrsti fastkjörni forseti evrópska ráðsins. Með sáttmálanum varð Sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi lögfestur sem skilyrði fyrir aðild að sambandinu. Lissabon-sáttmálinn lögfesti einnig ferli um útgöngu úr Evrópusambandinu. Bretar nýttu sér þennan lið Lissabon-sáttmálans þegar þeir kusuyfirgefa Evrópusambandið árið 2016.

Yfirlýst markmið með sáttmálanum var meðal annars að „þróa enn frekar þann samruna sem hófst í Evrópu með stofnun Evrópubandalaganna“ og „staðfesta mikilvægi meginreglnanna um frelsi, lýðræði, virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og réttarríkið“.[4] Andstæðingar Lissabon-sáttmálans, þar á meðal danski fyrrum Evrópuþingmaðurinn Jens-Peter Bonde, héldu því fram að Lissabon-sáttmálinn myndi auka miðstýringu Evrópusambandsins[5] og veikja lýðræði með því að færa valdið burt frá kjörnum fulltrúum aðildarþjóðanna.[6] Stuðningsmenn sáttmálans telja hins vegar að sáttmálinn veiti stjórnkerfi sambandsins aukið aðhald og styrki hlutverk hins lýðræðislega kjörna Evrópuþings.

Saga sáttmálans

[breyta | breyta frumkóða]

Byrjað var að semja um umbætur á stjórnkerfi Evrópusambandsins árið 2001 og í því skyni var gerður samningur um stjórnarskrá fyrir Evrópu, sem hefði fellt niður eldri samninga um Evrópusambandið og í þeirra stað sett stjórnarskrá. Meirihluti aðildarríkjanna staðfesti þennan samning en honum var að endingu hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi með 54.67% atkvæða á móti honum þann 29. maí 2005[7][8] og síðan aftur af 61.54% kjósenda í atkvæðagreiðslu í Hollandi þann 1. júní sama ár.[9]

Eftir langa umhugsun féllust aðildarríkin á að viðhalda eldri sáttmálunum en koma á breytingum á þeim. Þannig komust margar breytingarnar sem kveðið hafði verið á í stjórnarskránni í gegn. Upphaflega var áætlað að sáttmálinn tæki gildi fyrir lok ársins 2008 en þessu markmiði var ekki náð þar sem Írar höfnuðu sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní þetta ár. Írar samþykktu síðar sáttmálann í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2009 eftir að írska stjórnin hafði fengið nokkrum breytingum framgegnt.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. eur-lex.europa.eu: " Official Journal of the European Union, ISSN 1725-2423 C 115 Volume 51, 9. maí 2008, skoðað 4. september 2018.
  2. „Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?“. Vísindavefurinn.
  3. 3,0 3,1 Hverju breytir Lissabon-sáttmálinn í vægi aðildarríkja innan Evrópuþings og framkvæmdastjórnar?“, Evrópuvefurinn, 5. júlí 2011, skoðað 4. september 2018.
  4. Úr inngangsorðum Lissabon-sáttmálans.
  5. European Union Committee of the House of Lords (2008). The Treaty of Lisbon: an impact assessment. London: Stationery Office. bls. 335 (S18 Q47). „In the event, however, the Constitution and its successor, the Reform Treaty, pursued the centralizing course that had caused the democratic deficit in the first place. Additional competences are transferred to the EU...“
  6. Jens-Peter Bonde. From EU Constitution to Lisbon Treaty (PDF). Foundation for EU Democracy and the EU Democrats. bls. 41. „We can still have elections, but we cannot use our vote to change legislation in the many areas where the Union is given power to decide. It is a very, very long process to change an EU law under the Lisbon Treaty. The power to do this does not lie with the normal majority of voters. It also demands a great effort in a lot of countries to change a law.“
  7. „29 May 2005 European Constitution referendum : results in France“. Minister of the Interior (franska). Sótt 15. nóvember 2010.
  8. „Marine Le Pen : "L'esprit du 29 mai". Front National (franska). 28. maí 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. maí 2018. Sótt 4. september 2018.
  9. „Verkiezingsuitslagen Referendum 2005—Nederland“. Kiesraad (hollenska). Afrit af upprunalegu geymt þann 18. júlí 2011. Sótt 4. september 2018.