Linspire
Linspire, áður þekkt sem LindowsOS, er GNU/Linux dreifing sem byggir á Debian verkefninu. Linspire er ætlað til þess að auðvelda notkun Linux stýrikerfisins fyrir heimili, skóla og notendur í fyrirtækjum. Linspire leitast við að byggja upp GNU/Linux dreifingu sem er einföld í notkun fyrir hinn almenna tölvunotanda en uppfyllir ekki endilega kröfur þeirra sem eru lengra komnir og búa yfir meiri þekkingu.
Síðasta stöðuga útgáfa Linspire, er útgáfa 5.1 sem gefin var út 21. apríl 2006. Hún inniheldur KDE 3.3.2, Xorg 6.9.0, GCC 3.4.3 og útgáfu 2.6.14 af linux kjarnanum.
Freespire
[breyta | breyta frumkóða]Þann 24. apríl 2006 tilkynnti Kevin Carmony forstjóri Linspire útgáfu Freespire. Þessi nýja dreifing fylgir sama líkani og Fedora Core dreifingin sem studd er af Red Hat og Red Hat samfélaginu síðan árið 2003. Novell kom einnig á fót samskonar "samfélagsstuddu" verkefni tengdu SUSE dreifingu sinni sem nefnist OpenSUSE á seinni hluta árs 2005. Freespire mun byggja á Debian verkefninu, verða keyrt áfram af Freespire samfélaginu og verða nátengt Linspire dreifingunni.