Fara í innihald

Kyrrahafsskarkoli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Limanda aspera)
Kyrrahafsskarkoli

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Flatfiskar (Pleuronectiformes)
Ætt: Flyðruætt (Pleuronectidae)
Ættkvísl: Limanda
Tegund:
L. aspera

Tvínefni
Limanda aspera
(Pallas, 1814)

Kyrrahafsskarkoli (fræðiheiti: Limanda aspera) er flatfiskur af flyðruætt, með bæði augun staðsett á efri hlið líkamans og er munnurinn frekar lítill. Efri hlið líkamans er dökkbrún að lit og neðri hliðin er hvít. Uggarnir eru gulleitir með dökkum línum og er enskt heiti fisksins (Yellowfin sole) dregið af því. Hreistrið er frekar gróft á báðum hliðum. Líkaminn er hringlaga og meðallengd hans er 33,5 cm þegar hann er fullvaxinn, en karlkynið getur orðið allt að 50 cm.

Heimkynni og lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Kyrrahafsskarkoli er ein útbreiddasta flatfiskstegund í Norður-Kyrrahafi. Hann lifir allt frá Kanada og suður með ströndum Asíu og meðfram ströndum Japans. Hann er botnfiskur og heldur sig á mjúkum sandbotnum á allt að 700 metra dýpi og eru ýmis botndýr aðalfæða hans, meðal annars ormar og krossfiskar, en seiðin borða eingöngu svif. Hann er einnig mikilvæg fæða fyrir aðrar fiskitegundir, og þá aðallega þorsk og lúðu.

Á vorin, í kringum apríl og maí, fer hann á hrygningarslóðir í grunnan sjó í Bristolflóa og við Nunivak-eyju til þess að hrygna og einnig til þess að borða. Kvendýrið verður kynþroska þegar það nær um það bil tíu og hálfs árs aldri og er þá um 30 cm langt. Kyrrahafsskarkoli er mjög afkastamikil tegund og getur hrygnt 1–3 milljónir eggja í einu. Kyrrahafsskarkoli hefur langan lífsferil og getur hrygnt mörgum sinnum yfir ævina, ólíkt mörgum laxfisktegundum sem deyja eftir hrygningu. Hann vex einnig tiltölulega hægt og eins og áður kom fram tekur það hann meira en tíu ár að ná 30 cm lengd. Veiðst hafa fiskar sem eru um 40 ára gamlir.

Vísindamenn frá Alaska áætla að mikið magn sé af flatfisktegundum eins og kyrrahafsskarkola í Beringshafi og Alaskaflóa og hafa rannsóknir á síðustu árum sýnt fram á það að stofninn sé stór og stöðugur.

Veiðar og vinnsla

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd 1. Veiðar á kyrrahafsskarkola

Veiðar á kyrrahafsskarkola eru stundaðar allt árið um kring en mest á vorin til desember. Veiðarnar eru takmarkaðar á ákveðnum tímabilum þegar mikið af lúðu og kröbbum veiðast sem meðafli. Notast er við botnvörpur til veiðanna og er byrjað að veiða fiskinn þegar hann er um sex ára gamall. Hann er ein mest veidda flatfisktegundin í Norður-Kyrrahafi. Mest er veitt af honum í Beringshafi.

Á mynd 1 má sjá heimsafla á kyrrahafsskarkola frá 1970 til 2010. Stofninn hefur verið stór og í miklu jafnvægi síðasta áratug og hafa veiðarnar aukist miðað við það. Frá 2000 til 2010 var veiðin að meðaltali 94.000 tonn og árið 2008 fór aflinn í 148.894 tonn, sem var þá mesti afli í 11 ár. Á 6.–8. áratugnum var tegundin ofveidd og þá aðallega vegna veiða erlendra skipa. En með bættri fiskveiðistjórnun hefur stofninn náð sér aftur á strik, en hann er talinn fara minnkandi á næstu árum vegna aukningar á veiðum, en er þó ekki talinn í hættu.

Mynd 2. Veiðar eftir löndum

Á mynd 2 má sjá veiðar eftir löndum. Frá 1988 eru það einungis Bandaríkjamenn sem hafa verið að veiða kyrrahafsskarkola, en það ber að taka þessu línuriti með fyrirvara því það er líklegt að aðrar þjóðir séu að veiða kyrrahafsskarkola en skrái aflann bara sem skarkola, til dæmis Kanada.

NOAA Fisheries and the North Pacific Fishery Management Council fer með fiskveiðistjórnun í Norður-Kyrrahafi, og eru margar reglur um sókn á kyrrahafsskarkola.

Sjómenn verða að hafa leyfi til þess að taka þátt í veiðunum og eru leyfin takmörkuð til að stjórna heildarafla veiðanna. Fiskveiðistjórnin ákveður heildarafla fyrir hvert fiskveiðiár og 10% af kvótanum eru úthlutuð samfélögum í Alaska sem eru háð fiskveiðum. Allur afli verður að koma í land til vinnslu.

Kyrrahafsskarkoli sem er unninn úti á hafi er seldur heill og einnig afhausaður og slægður. Heili fiskurinn er oftast seldur til Suður-Kóreu en afhausaður og slægður fiskur er fluttur til Kína til frekari vinnslu. Svo er hann fluttur aftur til Bandaríkjanna og Kanada þar sem hann er seldur í veitingarhús og í búðir. Um það bil 80-90% af kyrrahafsskarkola sem er veiddur í Bandaríkjunum er fluttur til Asíu. Kyrrahafsskarkoli er mjög góður og hollur fiskur. Hann hefur sætt bragð og fína áferð. Hann er mjög ríkur af próteinum og nauðsynlegum næringarefnum.

Fyrirmynd greinarinnar var „Yellowfin sole“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 5. febrúar 2013.