Krossfiskar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Krossfiskar eða sæstjörnur
„Asteroidea“ úr Kunstformen der Natur eftir Ernst Haeckel frá 1904
„Asteroidea“ úr Kunstformen der Natur eftir Ernst Haeckel frá 1904
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Skrápdýr (Echinodermata)
Undirfylking: Asterozoa
Flokkur: Krossfiskar (Asteroidea)
Ættir[1]

Krossfiskar eða sæstjörnur (fræðiheiti Asteroidea) eru dýr sem tilheyra fylkingu skrápdýra en innan þeirrar fylkingar eru meðal annars ígulker, sæstjörnur og sæbjúgu. Flestir krossfiskar eru afræningjar og veiða botnföst dýr eða ýmis hægfara dýr svo sem ostrur og skeljar.

Það eru um 1.800 þekktar núlifandi tegundir krossfiska og þær finnast í öllum höfum heimsins.

Uppbygging[breyta | breyta frumkóða]

Þverskurðarmynd af stórkrossa (Asterias rubens).
1. Ambulacral smábein og ampullae
2. Madreporite
3. Steingangur
4. Pyloric caecae
5. Endaþarmskirtlar
6. Kynkirtlar
Astropecten lorioli - A tegundir Júra.

Krossfiskar hafa tvo maga. Annar maginn er fyrir meltingu en hinn getur verið utan á krossfiskinum og umlukið og melt bráðina. Þetta gerir krossfiski kleift að veiða bráð sem er mun stærri en munnur dýrsins gæti gleypt. Armar krossfisksins geta vaxið aftur og nýr krossfiskur getur orðið til úr einum armi. Þeir hafa vanalega fimm arma en þeir geta verið fleiri eða færri.

Fæðuöflun[breyta | breyta frumkóða]

Krossfiskar fæðast á skeldýrum. Krossfiskurinn kemur sér í stöðu við tvískelja lindýr (skeldýr) og festir sogfætur sína við hvorn hluta skeljarinnar. Með samhæfðum hreyfingum sogfótanna opnar hann skelina. Mjög lítil rifa er nóg til þess að hann geti ranghvelft út hjartamaganum (cardiac stomach) inn í skeldýrið. Maginn seytir meltingarensímum og meltingin hefst, jafnvel á meðan skeldýrið reynir að loka skelinni. Síðar er hálfmelt fæðan tekinn inn í partmagann þar sem meltingarferlið klárast. Meltingarkirtlar finnast í hverjum armi krossfisksins.1

Sjóæðakerfi[breyta | breyta frumkóða]

Öll skrápdýr hafa sjóæðakerfi sem þau nota til hreyfingar. Vatn flæðir inn í þetta kerfi í gegnum líkamshluta á efra borði krossfisksins sem heitir sáldflaga. Þaðan fer það í gegnum steingang að hringgangi sem umlykur munninn. Geislagangar sem greinast út frá hringganginum eru í hverjum armi. Þaðan flæðir vatnið í vöðvaríka belgi á sogfótunum. Samdráttur þessara belgja neyðir vatnið inn í sogfæturna og fær þá til að virka sem einhvers konar sogskálar. Krossfiskurinn hreyfir sig síðan með samdrætti og útvíkkun sogskálanna á víxl.1

Fjölgun[breyta | breyta frumkóða]

Krossfiskur getur fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Hver armur inniheldur tvo kynkirtla sem framleiða kynfrumur og leysa þær síðan út um kynrásir. Frjóvgunin á sér oftast stað utan líkamans en einnig innan líkamans hjá sumum tegundum. Hjá sumum tegundum er kynfrumunum einfaldlega sleppt út í sjóinn þar sem sáðfruma og eggfruma mætast og mynda okfrumu, sem síðar verður að tvíhliða lirfu. Lirfan myndbreytist síðar og verður að geislasamhverfum krossfiski.1

Sumar tegundir krossfiska fjölga sér með skiptingu, oftast þannig að hluti af armi dettur af og þroskast í annan krossfisk. Armur krossfisks getur ekki þroskast í annan einstakling nema hluti af miðhring krossfisksins fylgi með.

þverskurður af krossfisk

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Asterozoa: Fossil groups“, skoðað þann 12. mars 2008.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

1Mader, Sylvia S. og Michael Windelspecht. 2012. Inquiry Into Life. 14. útg. McGraw-Hill.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]