Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis
Höfundur | Sveinbjörn Egilsson |
---|---|
Land | Ísland |
Tungumál | Latína |
Útgáfudagur | 1860 |
Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis (latína; Orðabók um skáldamál hinnar fornu tungu norðursins) er tvítyngd orðabók rituð af Sveinbirni Egilssyni þar sem uppflettiorð og dæmi eru á íslensku og allar skýringar á latínu. Bókin var gefin út af Fornfræðafélaginu í Kaupmannahöfn árið 1860 og var stórvirki á sinni tíð, þegar aðeins lítill hluti hinna fornu heimildarrita hafði verið gefin út í fullnægjandi útgáfum. Um leið olli orðabókin straumhvörfum í rannsóknum á fornum íslenskum kveðskap.
Um aldamótin 1900–1901 fækkaði þeim óðum sem skildu latínu. Finnur Jónsson prófessor í Kaupmannahöfn vann þá útgáfuverk sem var álíka metnaðarfullt og verk Sveinbjarnar hálfri öld fyrr. Finnur gaf fyrst út allan forníslenskan kveðskap fram til 1400 (fyrir utan Eddukvæði sem til voru í fullnægjandi útgáfu og elstu rímur, sem Finnur gaf út í sérútgáfu 1905–1922). Verkið kom út á vegum Árnanefndar 1912–1915 og heitir:
- Den Norsk-Islandske Skjaldedigtning, Flokkur A, 1.–2. bindi. Texti skv. handritunum.
- Den Norsk-Islandske Skjaldedigtning, Flokkur B, 1.–2. bindi. Lagfærður texti.
Á grundvelli þessarar útgáfu endurskoðaði Finnur Lexicon poeticum frá grunni, og gaf hann út á vegum Fornfræðafélagsins á árunum 1913–1916. Í þeirri útgáfu eru uppflettiorð og dæmi á íslensku og allar skýringar á dönsku. Bókin kom í annarri útgáfu 1931, og ljósprentuð 1966.
Sumir hafa talið það fræðilegt örlæti hjá Finni að gefa bókina út undir nafni Sveinbjarnar Egilssonar, því að bókin í þeirri mynd sé verk Finns. Hins vegar er hugmyndin að bókinni og allt skipulag hennar komið frá Sveinbirni, auk þess sem Finnur hefur viljað minnast brautryðjandans með þessum hætti.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Clavis poëtica antiquae linguae Septemtrionalis
- Lexicon Islandico-Latino-Danicum
- Lexicon Islandicum
- Dróttkvæði
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Lexicon poeticum, formáli Finns Jónssonar að útgáfunni 1931.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Sveinbjörn Egilsson: Lexicon poeticum, 1860. — Á archive.org.
- Lexicon poeticum, 1. útgáfa 1913-16. — Á heimasíðu Septentrionalia.
- Lexicon poeticum, 2. útgáfa 1931. — Á heimasíðu Septentrionalia.