Fara í innihald

Leirherinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leirherinn, gröf eitt.

Leirherinn er samsafn af styttum úr leir sem tákna eiga heri Qin Shi Huang, fyrsta keisara Kína. Stytturnar, sem eru á níunda þúsund talsins, voru grafnar skammt frá grafhýsi keisarans á árunum 210-209 f.Kr. og átti leirherinn að vernda hann eftir dauðann.

Fornar heimildir eru til um grafhýsi Qin Shi Huang og fjársjóðina sem eiga að hafa verið grafnir með honum en grafhýsið hefur enn ekki verið opnað og veit enginn hvað það geymir. Aftur á móti nefna engar heimildir leirherinn og var ekkert vitað um tilvist hans fyrr en kínverskir bændur fundu hann árið 1974 og hefur hluti hans síðan verið grafinn upp. Í hernum eru ekki aðeins hermenn og ýmsir fylgisveinar, heldur einnig hestvagnar og hestar. Stytturnar eru í fjórum stórum gröfum, flestar í gröf eitt, sem er 230 m á lengd og 62 metra breið.

Leirhermaður með hesti sínum.

Leirstytturnar voru upphaflega málaðar í skærum litum en litirnir hafa dofnað eða málningin flagnað af að mestu. Þær munu upphaflega hafa verið búnar raunverulegum vopnum og fannst mikið safn vopna í gröfunum, svo sem sverð, spjót, stríðsaxir og lásbogar. Stytturnar hafa alls ekki verið allar steyptar í sama mót og hafa mismunandi andlitssvip. og búnað. Stytturnar eru misháar og eru hershöfðingjarnir hávaxnastir.

Leirherinn er á Heimsminjaskrá UNESCO.