Fara í innihald

Laíka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Laika)

Laíka (rússneska: Лайка, sem þýðir bókstaflega „sú sem geltir“) var sovéskur hundur (~1954 – 3. nóvember 1957) sem varð fyrsta dýrið til að fara á sporbaug um jörðina. Lítið var vitað um áhrif geimferða á lifandi verur fyrir tíma Laíku. Sumir vísindamenn töldu að flugtakið eða skilyrði í geimnum myndu draga menn til dauða og fannst verkfræðingum því nauðsynlegt að senda fyrst önnur dýr. Laíka, flækingshundur sem hét upprunalega Kudryavka (rússneska: Кудрявка, Litla krullhærða), gekkst undir þjálfun með tveimur öðrum hundum og var að lokum valin til að fara með geimfarinu Spútnik 2 sem var skotið á loft 3. nóvember 1957. Spútnik 2 var ekki hannað til að snúa til baka og var Laíku því ætlað að deyja.

Laíka dó nokkrum klukkustundum eftir flugtak vegna ofhitnunar. Hin raunverulega ástæða fyrir dauða hennar var ekki gerð opinber fyrr en árið 2002. Fyrir þann tíma var sagt að hún hefði dáið af súrefnisleysi eða (eins og Sovétmenn héldu upphaflega fram) að endir var bundinn á líf hennar áður en súrefnið kláraðist. Tilraunin sýndi hins vegar fram á að lifandi farþegi gæti lifað af slíkt lofttak og þyngdarleysi. Hún ruddi brautina fyrir geimferðum manna og veitti vísindamönnum áður óþekktar upplýsingar um viðbrögð dýra við aðstæðum í geimnum. 11. apríl 2008 afhjúpuðu rússnesk yfirvöld minnismerki um Laíku nálægt herrannsóknarstöð í Moskvu þar sem geimferðin var undirbúin. Minnismerkið sýnir Laíku standandi ofan á geimflaug.