La Voix sans maître

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

La Voix sans maître (íslenska: Röddin stjórnlausa) er þriðja bókin í ritröðinni Svalur & Valur - sérútgáfa (franska: Spirou et Fantasio Hors Série) og hefur að geyma átta sögur eða smáskrítlur um Sval og Val eftir fjóra höfunda eða höfundateymi. Um er að ræða smásögur frá löngu tímabili sem ekki höfðu áður birst í hinum formlega sagnaflokki. Hún kom út í Belgíu árið 2003 ásamt annarri bók með sams konar samtíningi. Engin sagnanna í bókinni hefur birst á íslensku.

Sögurnar[breyta | breyta frumkóða]

La Naissance de Spirou (íslenska: Svalur verður til) er endurprentun af fyrstu forsíðu Teiknimyndablaðsins Svals þar sem listamaðurinn Rob-Vel skapar persónuna bókstaflega með því að mála Sval á striga og spreyja því næst með lífsvökva.

La Puce (íslenska: Flóin) er sundurlaus saga um ævintýri Svals sem umboðsmaður og vinur þeldökks hnefaleikakappa sem birtist í Svals-tímaritinu frá ágúst 1942 til febrúar 1943. Sagan er eftir Rob-Vel og hluti af enn lengra ævintýri, en sögurnar um Sval á forsíðu hvers tölublaðs og voru lítt samhangandi samsafn af skrítlum og ærslagríni þar sem áherslan var meiri á hasar og gamansemi en rökréttan söguþráð. Svalur ákveður að gera vin sinn, sem fær viðurnefnið Flóin að heimsmeistara í hnefaleikum, sem tekst eftir ýmsar kostulegar uppákomur og átök við mafíuna. Að lokum ákveður Flóin að setjast í helgan stein sem alifuglaræktandi á Suðurhafseyju.

Fantasio et le siphon (íslenska: Valur og vatnssprautan) er tveggja opnu skírtla sem lýsir útistöðum Vals við ágengan sölumann sem reynir að selja vatnssprautu. Gormdýrið skerst í leikinn og allt endar með ósköpum. Sagan er eftir Franquin frá árinu 1957, en það ár hóf Dupuis-forlagið útgáfu á litlu vasariti, Spiroupoche, sem einkum hafði að gleyma auglýsingar í bland við smásögur með ýmsum kunnum myndasögupersónum.

La Fantacoptère (íslenska: Sólarorkuþyrlan) er smásaga frá árinu 1980. Eftir að Fournier hætti skyndilega sem aðalhöfundur Svals & Vals bárust böndin fljótt að teiknaranum Nic sem eftirmanni. Uppahaflega hugmyndin var að fá starfsmenn ritstjórnarskrifstofunnar til að semja sögurnar en að Nic tæki að sér að teikna þær. Sagan um Sólarorkuþyrluna var þannig samin af aðstoðarritstjóranum Alain De Kuyssche undir dulnefninu A. Lloyd.

Sagan hefst á að Valur endurbætir gamla uppfinningu sína úr Baráttunni um arfinn, sem var einföld þyrla sem fest var við bakpoka. Nýja útgáfan er með þægilegum hægindastól og gengur fyrir sólarorku. Þrátt fyrir efasemdir Svals og Sveppagreifans ákveður Valur að prófa gripinn sem reynist alltof kröftugur þegar sólin brýst fram úr skýjunum. Valur flýgur stjórnlaust veldur miklu uppnámi í Sveppaborg, þar sem verið er að afhjúpa styttu af borgarstjóranum. Að lokum tekst Sval og Sveppagreifunum að stöðva flugferðina með hjálp metómóls, töfraefnis sem bræðir málm og kom við sögu í bókunum Burt með harðstjórann! og Svamlað í söltum sjó. Því miður bráðnar myndastyttan í hamagangnum.

Teikningar Nic í þessari sögu þóttu nægilega góðar til að tryggja honum starfið sem aðalteiknari Svals & Vals-sagnanna en ákveðið var að fela höfundinum Cauvin að semja handritin í komandi bókum. Vegna réttindamála fengu þeir Nic og Cauvin ekki að nota flestar af aukapersónum Svals & Vals-heimsins sem skapaðar höfðu verið af Franquin og Fournier og er þessi saga því fágætt dæmi um það hvernig sögur þeirra hefðu getað litið út ef fleiri kunnuglegar persónur hefðu staðið þeim til boða.

La Voix sans maître (íslenska: Röddin stjórnlausa) er tiltilsaga bókarinnar eftir félagana Tome og Janry frá árinu 1981. Sagan hefst á setri Sveppagreifans sem er á leið í frí og skilur þá Sval og Val til að gæta hússins. Vísindamaður og vinur greifans kemur til að leita aðstoðar. Hann upplýsir að á nálægri herstöð sé unnið að tilraunum þar sem reynt sé að kenna apaketti mannamál og nýta til njósna. Dýrið hafi sloppið og sé nú á flótta undan hinum illu vísindamönnum. Félagarnir finna apaköttinn en í ljós kemur að hann getur sent frá sér öskur sem sprengir hljóðmúrinn og splundrar öllu gleri í grenndinni. Apakötturinn flýr undan útsendurum hersins en Svalur og Valur endurheimta hann í skemmtigarði með hjálp ungmenna úr Sveppaborg og koma í öruggt skjól.

La Menace (íslenska: Ógnin) er stutt saga frá 1982 eftir þá Tome og Janry. Svalur tekur að sér að gæta hunds fyrir nágranna sinn. Skömmu síðar kemur Valur aðvífandi með skringilegt gæludýr sem hann hafði fengið sent í pósti. Um hrekk er að ræða því dýrið er skúnkur, sem sendir frá sér skelfilega lykt ef honum er ógnað. Við tekur æsilegur eltingaleikur þar sem félagarnir koma í veg fyrir að hundurinn styggi skúnkinn. Þegar allt virðist fallið í dúnalogn verður Valur svo kátur að hann rekur upp skellihlátur, sem veldur því að skúnkurinn fyllir húsið af stybbu.

La Tirelire er là (íslenska: Viltu vinna milljón?) er tveggja blaðsíðna skrýtla frá 1984 eftir þá Tome og Janry. Nafn Svals er dregið út í happdrættisþætti sjónvarpi. Hann þarf að bruna heim og ná að svara í símann til að hreppa stóra vinninginn. Eftir trylltan kappakstur verður hann augnabliki of seinn.

Une semaine de Spirou et Fantasio (íslenska: Vikan með Sval og Val) er safn af skopmyndum á einni síðu sem sýna æsilega vinnuviku Svals og Vals. Hún var gerð af þeim Tome og Janry árið 2001 fyrir dagatal Svals-tímaritsins.

Útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Bækurnar L'Héritage og Radar le robot, sem báðar höfðu að geyma gamlar Svals & Vals-sögur eftir Franquin komu fyrst út árið 1976 en voru endurútgefnar árið 1989 sem fyrsta og annað hefti í nýrri ritröð: Svalur & Valur - sérútgáfa (franska: Spirou et Fantasio Hors Série). Ekki varð framhald á þeirri ritröð fyrr en löngu síðar, árið 2003 þegar La Voix sans maître og Fantasio et le fantôme komu út. Fimm ár voru þá liðin frá útgáfu síðustu Svals & Vals-bókar, Machine qui rêve, sem fengið hafði blendnar viðtökur en bókaforlagið vildi með þessu kveikja áhuga lesenda á ný.