Fara í innihald

Lögtún

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lögtúns-kirkja)
Lögtúns-kirkja

Lögtún er bær í sveitarfélaginu Frosta eða Frostu í Norður-Þrændalögum, í grennd við staðinn þar sem Frostaþing var háð. Ekki er vitað hvort nafnið var í eintölu eða fleirtölu, og sumir fræðimenn hafa giskað á að hin forna nafnmynd hafi verið Lagatún, en Lögtún er hliðstætt nafn og Lögberg.

Lögtúns-kirkja er forn steinkirkja við bæinn Lögtún. Talið er að lögbókin með Frostaþingslögunum hafi verið geymd í kistu í kirkjunni, og einnig signet lögmannsins. Í kirkjunni er altaristafla sem var skorin út 1652, og máluð 1655.

Samkvæmt Frostaþingslögunum var kirkja hér skömmu fyrir 1200, og líklega mun fyrr. Núverandi steinkirkja er talin byggð um eða eftir 1500, en hún gæti þó verið mun eldri að stofni til. Hún var aðalkirkja byggðarlagsins fram til 27. desember 1862, þegar ákveðið var að byggja nýja kirkju við Presthús (Frosta kirke). Sú kirkja var vígð 24. október 1866.

Gamla kirkjan var árið 1903 afhent Fornminjafélaginu í Noregi (Fortidsminneforeningen) gegn því að henni yrði haldið við. Nú er hún opin ferðamönnum á sumrin, og einnig notuð fyrir brúðkaup, skírnir og annað tilfallandi helgihald, auk tónleika.