Kulborði og hléborði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kulborði og hléborði (og atviksorðin kulborðs og hléborðs) eru hugtök sem eru notuð í siglingum. Þau eiga við um hliðar skips eftir því hvernig það snýr við vindi. Kulborði er sú hlið sem er áveðurs (snýr upp í vindinn) og hléborði sú hlið sem er hlémegin (snýr undan vindi). Kulborði og hléborði eru því breytilegir eftir því hvernig vindur blæs, öfugt við stjórnborða og bakborða sem eiga alltaf við um sömu (hægri og vinstri) hlið skipsins séð frá skutstefni.

Kulborði og hléborði skipta máli í siglingum seglskipa. Í Alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó frá 1972 er kveðið á um að sú skúta sem er hléborðs eigi alltaf réttinn þegar báðar beita á sama borð þar sem sú sem er kulborðs hefur meiri möguleika á að stýra (og afstýra árekstri) því hún hefur alltaf vindinn í seglin en getur aftur tekið vindinn úr seglum hinnar. Þessi regla gildir líka í siglingakeppnum.

Hléborðseyjar og Kulborðseyjar í Antillaeyjaklasanum í Karíbahafinu heita svo þar sem ríkjandi staðvindar blása frá suðri til norðurs og því eru nyrðri eyjarnar hléborðs og syðri eyjarnar kulborðs.