Fara í innihald

Kristján Albertsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristján Albertsson (9. júlí 189731. janúar 1989) var íslenskur rithöfundur, fræðimaður og ævisagnaritari sem starfaði lengi í íslensku utanríkisþjónustunni. Ef til vill er hann nú best þekktur fyrir frægan ritdóm sem hann skrifaði um Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness, sem hófst á orðunum: „Loksins, loksins.“

Kristján varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1916[1]. Hann las síðan bókmenntasögu við Kaupmannahafnarháskóla 1917-1921 og stundaði svo nám í Frakklandi og Þýskalandi. Þegar heim kom varð Kristján ritstjóri tímaritanna Varðar 1924-1927 og Vöku 1927-1929 og var áberandi í menningarlífi Reykjavíkur, meðal annars formaður Leikfélags Reykjavíkur, leikstjóri um skeið og skrifaði leikrit sem sett voru á svið.

Árið 1935 varð hann lektor í íslensku við háskólann í Berlín og gegndi því starfi til 1943. Árið 1946 gekk hann í utanríkisþjónustuna og var sendifulltrúi, lengst af í París en einnig á allsherjarþingi SÞ í New York um tíma.

Kristján skrifaði fjölda bóka, meðal annars ævisögu Hannesar Hafstein í þremur bindum, tvær skáldsögur, tvö leikrit og fjölda ritgerða og greina sem gefnar voru út á bókum. Hann sá einnig um útgáfu á ýmsum bókum og ritsöfnum. Ævisaga hans, Margs er að minnast, kom út árið 1985.

Kristján var á unglingsárum einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Fram árið 1908. Hann barðist fyrir því að nafni félagsins yrði breytt í Fram en upphaflega hafði því verið gefið heitið Kári.[2]


Fyrirrennari:
Sigurður Grímsson
Forseti Framtíðarinnar
(19161916)
Eftirmaður:
Vilhjálmur Þ. Gíslason


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Forsetar Framtíðarinnar frá 1883“. Menntaskólinn í Reykjavík.
  2. Víðir Sigurðsson. Fram í 80 ár, s. 20-29.