Kristín Ólafsdóttir
Kristín Ólafsdóttir (fædd 21. nóvember 1889, dáin 20. ágúst 1971) var íslenskur læknir og fyrsta konan sem lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands. Foreldrar Kristínar voru sr. Ólafur Ólafsson prófastur í Hjarðarholti í Dölum og Ingibjörg Pálsdóttir.
Kristín lauk stúdentsprófi utanskóla frá Latínuskólanum árið 1911 og var þriðja konan á Íslandi sem lauk stúdentsprófi. Hún lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands þann 15. febrúar 1917. Árið 1916 giftist hún Vilmundi Jónssyni lækni sem gegndi embætti landlæknis frá 1931–1959. Kristín og Vilmundur eignuðust þrjú börn, Guðrúnu Vilmundardóttur húsmóður, Ólöfu Vilmundardóttur tannsmið og Þórhall Vilmundarson prófessor við Háskóla Íslands.
Kristín starfaði í Svíþjóð og Danmörku frá 1918–1919 en eftir það á Ísafirði til ársins 1931 er hún hóf störf sem læknir á eigin læknastofu í Reykjavík en stofuna rak hún allt fram á síðustu æviár.
Kristín kenndi heilsufræði við húsmæðraskóla kvenfélagsins Óskar á Ísafirði, hún var ein af stofnendum Félags háskólakvenna árið 1928, sat í skólanefnd Húsmæðraskólans í Reykjavík frá 1941–1946 og í barnaverndarnefnd frá 1946–1952. Kristín samdi nokkur rit um mataræði og heilsu og þýddi auk þess nokkur rit.[1]
Á 100 ára afmæli Háskóla Íslands árið 2011 fékk skólinn portrett málverk af Kristínu að gjöf og er verkið að finna í aðalbyggingu skólans.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Kvennasögusafn Íslands, Kristín Ólafsdóttir læknir – ævi“. Sótt 9. maí 2019.
- ↑ „Fyrsta konan í læknastétt“. Sótt 9. maí 2019.