Krýningarbikarinn 1902

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Krýningarbikarinn 1902, 1902 Copa de la Coronación eða Concurso Madrid de Foot-ball Association var spænsk knattspyrnukeppni sem haldin var í tilefni af krýningarathöfn Alfons 13. Spánarkonungs. Keppnin um Krýningarbikarinn var undanfari Konungsbikarsins sem hóf göngu sína árið 1903, en Spænska knattspyrnusambandið viðurkennir hana ekki sem upphafsár þeirrar keppni.

Fimm lið skráðu sig til keppni í mótinu sem leikið var með útsláttarfyrirkomulagi. Það voru Barcelona-félögin Espanyol og FC Barcelona, Real Madrid og New Foot-Ball Club, sem var skammlíft knattspyrnufélag frá Madríd og Bizcaya sem var úrvalslið skipað leikmönnum frá basknesku félögunum Athletic Club og Bilbao Football Club, en þau sameinuðust skömmu síðar.

Real Madrid sló Barcelona úr keppni í viðureign sem telst fyrsti innbyrðisleikur liðanna og komst þannig í úrslitaleikinn. Þar voru andstæðingarnir Bizcaya sem unnu stórsigra á Espanyol og New Foot-Ball Club. Baskneska liðið sigraði svo í úrslitaleiknum, 2:1. Dómari var Carlos Padrós, formaður Knattspyrnusambandsins og einn stofnenda Real Madrid, en hann var aðalhvatamaðurinn að mótinu.

Daginn eftir mættust Real Madrid og Espanyol í keppni um silfurverðlaunin og unnu þeir fyrrnefndu, 3:2.

Mótið þótti takast vel og varð kveikjan að Konungsbikarnum sem hóf göngu sína ári síðar.