Fara í innihald

Keisaratilhneiging embættis Bandaríkjaforseta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Keisaratilhneiging embættis Bandaríkjaforseta (á ensku: imperial presidency) er hugtak notað um forsetaembætti Bandaríkjanna sem hefur þótt hafa tekið til sín meiri völd en stjórnarskráin segir til um. Hugtakið kom fram á sjöunda áratug síðustu aldar og var síðan titill bókar Arthurs M. Schlesingers yngri sem kom út árið 1972.

Schlesinger bendir á að vandamálið sé tvíþætt, annars vegar sé forsetaembættið orðið stjórnlaust og þurfi skýrari afmörkun og skilgreiningu. Hitt er að að vald forsetans sé farið að ógna því jafnvægi sem stjórnarskráin tilgreinir.[1] Forseti Bandaríkjanna sem æðsti yfirmaður heraflans virðist, þegar hægt er að benda á ógn við Bandaríska hagsmuni, eiga auðvelt með að taka sér þau völd sem honum hugnast og þá á kostnað þingsins.

Sögulegt yfirlit

[breyta | breyta frumkóða]

Kenningar eru uppi um að þetta samband á milli þingsins og framkvæmdavaldsins einkennist af eilífri togstreitu. Þegar forsetinn hefur náð að styrkja stöðu og auka valdsvið embættisins, gjarnan í krafti stríðsátaka sem kalli á skjót og tafarlaus viðbrögð þá komi þingið og reyni að ná aftur vopnum sínum. Þetta var tilfellið þegar þingið gekk hart fram við að ná til baka þeim völdum sem það hafði misst í forsetatíð Franklin D. Roosevelt. Hann hafði nýtt sér til fulls að hafa farið í gegnum kreppuna miklu og seinni heimstyrjöldina á 12 ára valdatíma sínum og styrkt völd forsetaembættisins umtalsvert. Þingið stytti þá hámarks valdatíma forsetans í tvö kjörtímabil en Harry S. Truman og þeir sem á eftir komu og stóðu í framlínu kaldastríðsins, juku aftur vald forsetaembættisins.

Því hefur verið haldið fram að í valdatíð Lyndons B. Johnson og Richards M. Nixon sem stóðu í ströngu í Víetnamstríðinu, hafi þingið í raun einungis verið þeim til stuðnings og aðstoðar við að framfylgja stefnu forsetaembættisins í utanríkismálum. Aldrei hafi þeir notið ráðgjafar eða haft þingið með í ráðum heldur einungis kynnt fyrir þingmönnum hvað það væri sem þeir væru að styðja, kæmi það ekki nógu skýrt fram í fjölmiðlum.[1]

Þessu var ekki snúið við fyrr en í kjölfar afsagnar Nixons á áttunda áratugnum. Þá hafði Nixon gerst býsna stórtækur til valda og hafði með ýmsum ráðum víkkað út valdsvið foretans. Þau ráð voru ekki bara víðtæk heldur hreinlega glæpsamleg því Hvíta húsið var farið að iðka stjórnarhætti sem hæfðu frekar starfsemi leyniþjónustu en stjórnvaldsforystu. Nixon kom því þannig fyrir að menn höfðu eftirlit hver með öðrum, ein stofnun var með nefið ofan í málum annarrar til að tryggja að enginn færi út af sporinu og með því að reka fólk óhikað skapaði hann ótta og undirgefni [2]. Þessi spilaborg hrundi þegar Watergate málið kom upp og í ljós kom ólögleg starfsemi á borð við innbrot, þjófnaði, mútugreiðslur og Nixon neyddist til að segja af sér.

Í kjölfar þessa brást þingið því við með því að auka gegnsæi og aðhald með forsetaembættinu. Meðal annars var stofnuð nefnd sem höfðu það hlutverk að líta eftir fjárútlátum auk þess sem ýtt var undir möguleika starfsmanna stjórnkerfisins til að tilkynna um mál sem þóttu athugaverð með aukinni vernd þeim til handa.

Þegar litið er til síðustu ára er skemmst að horfa til atburðanna 11. september 2001 og eftirmála þeirra. Þá reyndi mjög á forsetaembættið og utanríkismál Bandaríkjana voru í sviðsljósinu. Hægt að fullyrða að forsetinn gat í ljósi hinna dramatísku atburða og þess ástands sem ríkti í kjölfarið tekið sér ákveðin völd sem auðveldara var fyrir fólk að skrifa upp á en ella. Þar gekk varaforsetinn Dick Cheney einnig mjög ákveðið fram í auka völd síns embættis. Það hefur hins vegar verið bent á að Bush stjórnin hafi fyrir atburðina 11. september, haft í frammi bæði yfirlýsingar og tilburði í þá átt að færa til sín meira vald.

  1. 1,0 1,1 Schlesinger, Arthur (1973). The Imperial Presidency. Sótt 25. október 2010.
  2. Rudalevige, Andrew (2006). The new imperial presidency: renewing presidential power after Watergate. Sótt 25. október 2010.