Keflavíkurgangan 1983

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Keflavíkurgangan 1983 eða Friðargangan var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 6. ágúst árið 1983. Þetta var níunda Keflavíkurgangan og beindist gegn bandarískri hersetu og kjarnorkuvopnakapphlaupi risaveldanna, enda haldin sama dag og kjarnorkuárásin á Hiroshima.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Áherslan á kjarnorkuafvopnun var í fyrirrúmi í göngunni sem bar yfirskriftina Aldrei aftur Hírósíma.[1] Jafnframt voru settar fram kröfur um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, friðlýsingu Norður-Atlantshafs, virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða og hlutleysi Íslands gagnvart öllum hernaðarbandalögum. Í aðdraganda göngunnar voru birtar auglýsingar í dagblöðum þar sem hópar fólks úr ýmsum stéttum lýstu stuðningi við kröfur göngunnar.

Rúnar Ármann Arthúrsson setti gönguna í Keflavík, en ræður á hinum ýmsu stöðum fluttu Ragnar Arnalds, Páll Vilhjálmsson, Bergþóra Gísladóttir, Vésteinn Ólason, Árni Björnsson, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sr. Rögnvaldur Finnbogason og Sveinbjörn B. Jacobsen, fulltrúi færeyskra herstöðvaandstæðinga. Vigfús Geirdal úr miðnefnd SHA sleit loks útifundinum við Miðbæjarskólann í göngulok.

Þegar gangan var komin í Lækjargötu, skiptist hún í tvennt. Gekk annar hlutinn að sovéska sendiráðinu en hinn hlutinn að því bandaríska. Mynduðu hóparnir samfellda keðju þar sem göngumenn héldust hönd í hönd milli sendiráðanna. Áætlað var að á sjötta þúsund manns hefðu tekið þátt í síðasta hluta göngunnar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).