Kambeðla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samansett beinagrind af kambeðlu.

Kambeðla eða Stegosaurus var risaeðla sem uppi var á síðari hluta Júratímabilsins, fyrir um 145-150 milljónum ára.

Kambeðlan hafði plötur á baki sem mynduðu tvær raðir af kömbum og er nafnið dregið af því. Ekki er fullvíst hvaða tilgangi kambarnir gegndu en líklegast er talið að þeir hafi annars vegar verið varnartæki og hins vegar hafi eðlan notað þá til að tempra líkamshita sinn. Á halanum hafði hún fjóra hvassa gadda sem hún gat notað sér til varnar með því að slá halanum til.

Kambeðlan var stórvaxin, gat orðið allt að 9 metrar á lengd, 4-5 metrar á hæð og um 4,5 tonn á þyngd. Heilabú hennar var hins vegar mjög lítið; heilinn var á stærð við valhnetu, 3 sentímetrar á lengd og um 75 grömm. Kambeðlan var jurtaæta og hefur líklega helst lifað á burknum, köngulpálmum og mosa. Kambeðlan var útbreidd í Norður-Ameríku en menjar um hana hafa einnig fundist í Evrópu.