Kalkofnsvegur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kalkofnsvegur árið 2019.

Kalkofnsvegur er gata í Reykjavík. Hann tengir Geirsgötu í vestri við Sæbraut í austri. Hámarkshraði er 50 km/klst og akstur er heimill í báðar áttir. Vegurinn heitir eftir kalkbrennsluofni sem þar var forðum daga, en í slíkum ofnum var kalk brennt til sementsgerðar. Seðlabanki Íslands stendur við Kalkofnsveg.

Kalkofninn á Kalkofnsvegi[breyta | breyta frumkóða]

Siemsenshús í forgrunni og kalkofninn í bakgrunni. Lækurinn sem rann um Lækjargötu til hægri

Fram með Arnarhólstúni sjávarmegin lá stígur, og var þar trébrú yfir lækinn; þessi stígur lá að allmiklu timburhúsi, þar sem Björn múrari Guðmundsson verzlaði með timbur. Þar var kalkofn, og átti að brenna þar kalkstein, sem fannst í Esjunni og var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir, bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn var óhreint, bæði úr Tjörninni og svo blandað sjávarseltu, og óhæfilegt til kalkgerðar. Kalkið var þannig ónýtt eða miklu verra en þurft hefði.[1]

Ástæða þess að ekki voru byggð hér steinhús heldur eingöngu hlaðnir torfbæir var skortur á kalki sem steinlími en kalk var mjög dýrt í innflutningi. Kalksteinn fannst í Esjunni um 1863. Einnig fannst kalklag í Helgustaðafjalli. Sumarið 1873 voru gerðar tilraunir með að brjóta kalk upp við Mógilsá og brenna í kalkbrennsluofni hjá Rauðará. Sumarið 1876 var byrjað að byggja kalkbrennsluofn á lóð úr Arnarhólslandi við lækjarósinn (Þar sem lækurinn í Lækjargötu rann til sjávar) og var stígur frá honum niður að sjó svo auðvelt væri að koma kalksteini þangað. Kalkofninn var fullgerður árið 1877. Hann var turnlaga. Kalksteinn var brotinn í Esjunni og var hann sprengdur með púðri. Kalksteinninn var fluttur með hestum frá námunni niður að sjó og þaðan á bátum til Reykjavíkur. Vinnslan árið 1877 mun hafa verið um 630 tunnur og kostaði hver tunna 6 krónur. Kalkvinnslan stóð ekki nema nokkur ár. Steinhús í Lækjargötu 10 er límt saman með kalki úr Esjunni. Árin 1916-17 var gerð önnur tilraun með kalknám í Esju og var þá notað dýnamít og hrundi námugangur í einni sprengingju þar og var þá kalknámi hætt.

Hreyfilshúsið[breyta | breyta frumkóða]

Frá að minnsta kosti 1952 var bifreiðastöðin Hreyfill til húsa í litlu einlyftu húsi við Kalkofnsveg, en stöðin var stofnuð 1943. Þeir fluttu síðan að Hlemmi og voru þar til 1971. Húsið á Kalkofnsvegi stóð til 1971 þegar það varð að víkja fyrir breikkun Lækjargötu.

Í morgun gekk grafa endanlega frá Hreyfilshúsinu gamla við Kalkofnsveg, ýtti því burt eins og hverju öðru spýtnabraki, og þar með er síðustu hindruninni rutt úr vegi fyrir „beinum vegi og breiðum" norður af Lækjargötunni.„Miðbænum fórnað fyrir blikkbeljuna" segja arkitektar, sem mótmæltu með stöðu við Stjórnarráðsgarðinn þessum breytingum, einkum þó að grasbletturinn skuli minnkaður og stytturnar af Hannesi og Kristjáni færðar.

— Úr Morgunblaðinu 1971, 4. júlí


Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Reykjavík um aldamótin 1900, Eimreiðin 1.1.1900
  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.