KNI
KNI A/S (grænlenska: Kalaallit Niuerfiat; danska: Grønlands Handel) er arftaki Konunglega danska verslunarfélagsins sem áður fór með stjórn Grænlands á milli 1774 og 1908, og hafði einokun á verslun þar til 1950. Grænlenska heimastjórnin tók við stjórn félagsins árið 1986 og breytti nafni þess í Kalallit Niuerfiat. Árið 1992 var félagið endurskipulagt sem eignarhaldsfélagið KNI. Árið 1990 var Royal Greenland stofnað um fiskveiðar félagsins og 1992 var Royal Arctic Line stofnað um sjóflutninga. Árið 1993 voru verslanir félagsins settar í félögin Pilersuisoq og Pisiffik og 2001 var Pisiffik selt til danska fyrirtækisins Dagrofa. Pilersuisoq rekur smávöruverslanir í afskekktum þorpum, sér um póstþjónustu, bankaþjónustu og þjónustu á sumum flugvöllum og þyrluvöllum, þar á meðal fríhafnarverslun á flugvöllunum í Kangerlussuaq og Narsarsuaq. Fyrirtækið Polaroil í eigu KNI rekur 70 eldsneytisstöðvar um allt Grænland. Önnur fyrirtæki í eigu KNI eru verslunarkeðjan Neqi og fasteignafélagið KNI Property.
Höfuðstöðvar KNI eru í Sisimiut á Vestur-Grænlandi.