Fara í innihald

Judah Löw

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Höggmynd af Judah Loew í miðborg Prag.

Judah Löw (f. um 1520, d. 17. september 1609 í Prag)[1] er þekktur meðal fræðimanna um gyðingdóm sem Löw rabbíni eða „Maharal af Prag“ (eða einfaldlega „Maharal“), en það er skammstöfun fyrir „Moreinu ha-Rav Löw“ (ísl. „kennari okkar, Löw rabbíni“).

Ævi og ætt

[breyta | breyta frumkóða]

Jehuda ben Bezal’el Löw var næst elsti sonur Bezal'el ben Chajjim, sem var bróðir ríkisrabbínans Jacob Löw. Í höfundarverki Löws er hvergi fjallað um bernsku hans, uppeldi né kennara úr æsku og því eru yngri ár ævi hans með öllu hulin myrkri. Hvorki eru til neinar öruggar heimildir um fæðingardag né fæðingarstað hans. Þó er hann talinn koma af frægri og menntaðri fjölskyldu rabbína — líklega með rætur í Worms. Algengast er að telja hann fæddan 1512 — sennilega í Poznań[2] — en margir vísindamenn telja hann hafa fæðst þónokkru síðar (allt til 1525).

Afkomendur Judah Löw voru ungverski rabbíninn Leopold Löw og sonur hans Immanuel Löw.

Um starfsævi Löws eru aðeins til skrár yfir árin 1553-1573, þegar hann þjónaði sem rabbíni og síðar yfirrabbíni í móravíska bænum Nikolsburg (Mikulov). Þar hafði hann einnig umdæmi sem skipuleggjandi í stjórnsýslumálum og sem sérfræðingur um réttarkerfið. Þekktastur var Löw þó fyrir að vera áhrifamikill guðfræðingur, sérhæfður í gyðinglegri dul- og heimspeki. Túlkanir á tveimur höfuðritum gyðinga, Torah og Talmud, eru stærsta viðfangsefni Löws sem fræðimanns. Umfangsmesta rit hans er Gur Aryeh al HaTorah, sem er ítarlegt skýrringarrit yfir athugasemdir Rashi um Torah. Um Löw rabbína er ótal rita til, þar sem frásagnir úr raunveruleikanum og skáldskapur renna mögulega saman í eitt og því eru þær ekki allar sannar.

Golemið í Prag

[breyta | breyta frumkóða]
Löw rabbíni og golem, máluð af Mikoláš Aleš

Golem (hebreska: גולם‎‎, ísl. „hið óorðna“) er dulmagn úr þjóðsögum gyðinga — goðsagnakennd vera sem er eins konar kvikur manngervingur, mótaður úr lífvana efni á borð við mold eða leir. Mörgum sögum fer af því hvernig golemið var vakið til lífsins og hvernig því var síðar stýrt. Til þess að geta hleypt lífi í leirinn þurftu gyðingarnir að hafa á valdi sínu sömu dulrænu krafta og Jahve beitir til að skapa fyrsta manninn, Adam. Áður en lífinu var blásið í Adam hafði Guð hnoðað hann úr hans eigin mold og ösku.

Skv. einni frásögn af góleminu í Prag hafði það þegar verið uppi í 400 ár þegar Löw rabbíni tók það í þjónustu sína. Í annarri og kunnari frásögn er Löw sjálfur sagður hafa hnoðað golemið úr leir, sungið í það líf með eins atkvæðis töfraþulunni „schem“ og síðan gert að þjóni sínum. Sagan þarf að skoðast með þeim fyrirvara að fyrsta frásögnin af Löw rabbína og góleminu í Prag leit ekki dagsins ljós fyrr en 200 árum eftir dauða hans, en það er algengur misskilningur að hann hafi skrifað hana sjálfur.

  1. Bæheimur, sem kaþólskt land, fór undir gregoríanskt tímatal árið 1584. Í júlíanska tímatalinu var það 7. september. Á legsteini hans, með vísan í Gal Ed, Megilas Yuchsin og aðra, er dánardagur sagður fimmtudagur 18. Elul 5369.
  2. ד"ר א. הכהן עובדיה Dr Avraham Hacohen Ovadia (Gotsdiner) (2001). Ha'ari Shebechachmai Prague (hebreska). Jerusalem, Israel: Mosad Harav Kook. bls. 138. OCLC 145439809. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. maí 2009.