Fara í innihald

John Broadus Watson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
John Watson.

John Watson (f. 9. janúar, 1878 — d. 25. september, 1958) var bandarískur sálfræðingur. Hann fæddist í Suður-Karólínu þar sem hann ólst upp á bóndabýli. Faðir hans var drykkfelldur og yfirgaf fjölskylduna þegar hann var 13 ára. Þrátt fyrir að hann hafi að eigin sögn ekki verið góður námsmaður gekk hann í Furman-háskóla þegar hann var 16 ára. Þar hlaut hann mastersgráðu fimm árum síðar og fór í doktorsnám í sálfræði og heimspeki við háskólann í Chicago. Hann bjó við mikla fátækt á þessum árum og fjármagnaði m.a. námið með því að þjóna til borðs, hreinsa tilraunastofur og fóðra rottur. Hann gafst fljótlega upp á heimspekinni og hlaut doktorsnafnbót í sálfræði árið 1903. Fimm árum síðar gerðist hann prófessor við Hopkins-háskóla.

Hann hafði þá þegar þróað hugmyndir sínar um mannlegt atferli og lagði stund á líffræði, lífeðlisfræði og kynnti sér hegðun dýra. Í námi sínu varð hann fyrir greinilegum áhrifum af rússneska vísindamanninum Ivan Pavlov. Hann hóf að rannsaka hegðun barna og fór að þróa kenningar um að mennirnir fylgdu sömu lögmálum og dýrin, þeir væru einfaldlega flóknari eða þróaðri. Hann taldi öll dýr vera ekkert annað en flóknar vélar sem brugðust við aðstæðum með taugaboðum sem voru skilyrt með reynslu. Árið 1913 gaf hann út grein þar sem hann gerði grein fyrir hugmyndum sínum og sem urðu mikilvægar í þeirri grein sálfræðinnar sem þá var að slíta barnsskónum, atferlisfræðinnar. Greinin hét Sálfræði eins og atferlissinninn sér hana (e. Psychology as the Behaviorist Views It).

Þessi grein, atferlisfræðin, var í meginatriðum gjörólík stefnum sálfræðinnar sem hafði einkennst af sálaraflskenningum Freuds og fylgismanna hans. Watson taldi viðhorf þess síðarnefnda enda komast ansi nálægt dulspeki. Í stað þess var lögð áhersla á að skoða það mælanlega og sett var fram sú kenning að hægt væri að draga ályktanir um menn út frá rannsóknum á dýrum, enda á atferlisfræðin margt að rekja til þróunarkenningar Darwins.

Árið 1920 lauk ferli hans sem háskólaprófessors skyndilega í kjölfar hneykslis. Upp frá því lagði hann stund á auglýsingamennsku þar sem hann notaði reynslu sína af sálfræði og mannlegu atferli.

Litli Albert

[breyta | breyta frumkóða]
The "Little Albert" experiment

Watson er frægur fyrir rannsókn sína á Litla Albert, 11 mánaða gömlum strák. Með því að nota skilyrðingu náði Watson að kalla fram hræðsluviðbragð barnsins með því að para hvíta rottu við hátt hljóð. Hræðsla drengsins við rottur alhæfðist fljótlega yfir á kanínur, pelsa og jólasveinagrímur. Þrátt fyrir að tilraunin sé á mörkum þess að vera siðleg, miðað við nútímaskilning þess orðs, hafði hún mikil áhrif á skilning manna á ýmsum sviðum sálfræðinnar.