Fara í innihald

Jöfnunarsæti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jöfnunarmenn)

Jöfnunarsæti eða uppbótarsæti eru notuð í þingkosningum í flestum Norðurlandanna og Þýskalandi. Jöfnunarmenn koma til viðbótar við kjördæmakjörna þingmenn og hafa þann tilgang að úthlutun þingsæta til stjórnmálaflokka á landsvísu sé í sem mestu samræmi við hlutfallslega skiptingu atkvæða á landsvísu.

Á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

— 4. mgr. 31. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Á Íslandi eru 9 af 63 sætum á Alþingi jöfnunarsæti en til þess að stjórnmálaflokkur komi til greina við úthlutun jöfnunarsæta þarf hann að hafa fengið a.m.k. 5% atkvæða á landsvísu. Jöfnunarsætin eru bundin kjördæmum þannig að landsbyggðarkjördæmin þrjú hafa hvert um sig einn jöfnunarmann en í hverju af kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu eru tveir jöfnunarmenn. Úthlutunarreglur jöfnunarsæta leiða til þess að lítill atkvæðamunur, bæði á milli framboða og á milli sama framboðs í mismunandi kjördæmum, getur leitt til gerólíkrar úthlutunar á því í hvaða kjördæmum jöfnunarmenn lenda. Eftir því sem talningu vindur fram á kosninganótt þá sjást gjarnan miklar sviptingar á úthlutun jöfnunarsæta og hefur verið vísað til þess sem „jöfnunarmannahringekju“.[1] Kerfið hefur því sætt nokkurri gagnrýnni vegna þess að erfitt þyki fyrir almenning að skilja hvernig kerfið skilar niðurstöðum sínum. Þessi umræða komst í hámæli í kjölfar Alþingiskosninga 2021 þar sem endurtalning atkvæða og smávægilegar breytingar á atkvæðatölum í Norðvesturkjördæmi á sunnudegi eftir kjördag leiddi til þess að fimm jöfnunarmenn duttu út og aðrir fimm komu inn í staðinn.

Þegar núverandi fyrirkomulagi jöfnunarmanna var komið á með breytingu á stjórnarskrá 1999 og kosningalögum ári síðar var það á grundvelli sáttar milli allra stjórnmálaflokka um að kosningakerfið ætti að leiða til úthlutunar á þingsætum til stjórnmálaflokka í samræmi við fylgi þeirra á landsvísu. Það gekk eftir í fyrstu þremur þingkosningunum eftir að kerfinu var komið á en frá og með Alþingiskosningunum 2013 hefur jöfnunarmannakerfið ekki megnað að jafna hlut stjórnmálaflokka á landsvísu. Það gerist vegna þess að mun færri kjósendur eru að baki hverjum kjördæmakjörnum þingmanni í landsbyggðarkjördæmunum en á höfuðborgarsvæðinu og jöfnunarmenn eru of fáir á landsvísu til að leiðrétta muninn.[2]

Í fernum þingkosningum hefur úthlutun þingsæta ekki verið í samræmi við fylgi flokka á landsvísu:

Úthlutun jöfnunarsæta

[breyta | breyta frumkóða]

Um úthlutun jöfnunarsæta fer samkvæmt 108. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Samhljóma ákvæði er í nýjum kosningalögum sem taka gildi 1. janúar 2022.

108. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis

Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu. Til þess að finna hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut stjórnmálasamtaka, sem fullnægja skilyrðum 1. mgr., og hvaða framboðslistar þeirra hafa hlotið jöfnunarsæti skal fyrst telja saman atkvæðatölur þeirra á landinu öllu og kjördæmissæti þeirra skv. 107. gr. Síðan skal fara þannig að fyrir þessi samtök:

  1. Deila skal í atkvæðatölur samtakanna með tölu kjördæmissæta þeirra, fyrst að viðbættum 1, síðan 2, þá 3 o.s.frv. Útkomutölurnar nefnast landstölur samtakanna.
  2. Taka skal saman skrá um þau tvö sæti hvers framboðslista sem næst komust því að fá úthlutun í kjördæmi skv. 107. gr. Við hvert þessara sæta skal skrá hlutfall útkomutölu sætisins skv. 1. tölul. 107. gr. af öllum gildum atkvæðum í kjördæminu.
  3. Finna skal hæstu landstölu skv. 1. tölul. sem hefur ekki þegar verið felld niður. Hjá þeim stjórnmálasamtökum, sem eiga þá landstölu, skal finna hæstu hlutfallstölu lista skv. 2. tölul. og úthluta jöfnunarsæti til hans. Landstalan og hlutfallstalan skulu síðan báðar felldar niður.
  4. Nú eru tvær eða fleiri lands- eða hlutfallstölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 3. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.
  5. Þegar lokið hefur verið að úthluta jöfnunarsætum í hverju kjördæmi skv. 2. mgr. 8. gr. skulu hlutfallstölur allra lista í því kjördæmi felldar niður.
  6. Hafi allar hlutfallstölur stjórnmálasamtaka verið numdar brott skal jafnframt fella niður allar landstölur þeirra.
  7. Beita skal ákvæðum 3. tölul. svo oft sem þarf þar til lokið er úthlutun allra jöfnunarsæta, sbr. 2. mgr. 8. gr.

Til einföldunar má segja að úthlutunin fari fram í tveimur skrefum:

  1. Í fyrsta lagi þarf að finna út hvað hver stjórnmálaflokkur á heimtingu á mörgum jöfnunarmönnum á landsvísu. Það er gert með því að reikna út svonefndar landstölur hvers flokks. Deilt er í fjölda atkvæða á landsvísu með fjölda kjördæmakjörinna þingmanna flokksins að einum viðbættum, svo tveimur og svo koll af kolli og þannig fundin röð af landstölum fyrir hvern flokk. Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa 9 hæstu landstölurnar fá jöfnunarsætin í sinn hlut. Með þessu er í raun líkt eftir því hvernig þingsætum væri úthlutað samkvæmt d'Hondt-reglu ef landið væri eitt kjördæmi.
  2. Í öðru lagi þarf að raða þeim jöfnunarmönnum sem stjórnmálaflokkar fá í fyrsta skrefi niður á laus jöfnunarsæti í kjördæmunum. Það er gert með því að finna hvaða stjórnmálaflokkur hafði hæstu landstöluna úr skrefi eitt og úthluta til hans jöfnunarmanni í því kjördæmi þar sem sem næsti maður þess flokks til að ná kjöri hafði hæstu hlutfallslegu útkomutöluna. Hlutfallsleg útkomutala er hlutfall atkvæða flokksins af heildarfjölda atkvæða í kjördæminu, deilt með fjölda þingmanna flokksins sem þegar hafa náð kjöri í kjördæminu að einum viðbættum. Ef framboð hefur t.d. 15% fylgi í kjördæmi og einn kjördæmakjörinn mann þá er hlutfallsleg útkomutala næsta manns 7,5%. Svo er næsta landstala fundin og farið eins að, en ef jöfnunarsæti í því kjördæmi þar sem næsti maður hafði hæstu hlutfallslegu útkomutöluna er þegar upptekið þarf að fara í það kjördæmi þar sem fylgið var næstmest. Eftir því sem neðar dregur í úthlutun jöfnunarmanna fækkar að sama skapi jöfnunarsætunum sem í boði eru í kjördæmunum.

Svokölluð jöfnunarmannahringekja við talningu atkvæða fer af stað vegna þess sem gerist í öðru skrefinu. Til dæmis ef það koma inn nýjar tölur sem breyta því í hvaða kjördæmi flokkurinn sem á fyrsta jöfnunarsætið á landsvísu hefur hæstu hlutfallslegu útkomutöluna, þá breytist um leið úthlutun allra jöfnunarsætanna. Úthlutunarreglur jöfnunarsæta leiða til þess að flokkar sem eiga heimtingu á síðustu jöfnunarsætunum fá þau ekki endilega í þeim kjördæmum þar sem fylgið var hlutfallslega mest vegna þess að sætin þar eru þegar upptekin. Þetta getur einnig leitt til þess að sami flokkurinn fái úthlutað báðum sætum í þeim kjördæmum þar sem jöfnunarsætin eru tvö. Samkvæmt reglunum er raunar fræðilegur möguleiki á því að flokkur fái úthlutað jöfnunarsæti í kjördæmi þar sem hann hefur ekki fengið nein atkvæði eða jafnvel ekki verið í framboði. Ekki er fjallað um það í kosningalögum hvað myndi gerast við þær aðstæður.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Listar yfir nýkjörna þingmenn sendir á yfirkjörstjórnir - Kjarninn, 28.9.2021
  2. Jöfnunarsæti þyrftu að vera fleiri - RÚV, 26.1.2021

Hverjar eru úthlutunarreglur jöfnunarþingsæta? - Vísindavefurinn