Jón Arnórsson yngri (sýslumaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Jón Arnórsson yngri (f. 1740, d. 27. apríl 1796) var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Hann var albróðir Jóns eldri, sem var sýslumaður í Snæfellsnessýslu. Jón var sonur Arnórs Jónssonar sýslumanns í Belgsholti í Melasveit og Steinunnar Jónsdóttur konu hans. Jón lærði lög við háskólann í Kaupmannahöfn en tók ekki lokapróf. Hann varð skrifari hjá Thodal stiftamtmanni í tvö ár, fór síðan aftur til Danmerkur. Hann kom heim til að veita forstöðu saltvinnslunni sem sett var á fót í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og hélt því starfi til æviloka, en eftir hans dag lagðist saltvinnslan af.

Jón varð sýslumaður Ísafjarðarsýslu 1774. Hann bjó í Reykjarfirði. Kona hans var Kristín Jónsdóttir og áttu þau mörg börn sem komust upp og eru ættir frá þeim. Jón var vel látinn og farnaðist vel í starfi. Hann varð þó fyrir miklu tjóni er bær hans brann og allt sem þar var innanstokks, en fólk komst af.