Jón Þorvaldsson (ábóti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Þorvaldsson (d. 12. maí 1514) var prestur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd og síðan ábóti í Þingeyraklaustri frá því um 1500 en hafði áður haft umráð yfir klaustrinu frá því að Ásgrímur Jónsson ábóti, föðurbróðir hans, lést 1495.

Jón var sonur Þorvalds búlands Jónssonar, lögréttumanns á Móbergi í Langadal. Móðir hans er óþekkt en á meðal systkina hans var Björg Þorvaldsdóttir, seinni kona Jóns Sigmundssonar lögmanns. Hann varð prestur á Höskuldsstöðum 1490 og sat þar uns hann varð ábóti en annaðist jafnframt málefni Þingeyraklausturs frá 1495. Hann var Hólaráðsmaður um tíma og einnig officialis.

Jón reyndi mikið að koma á sáttum í deilu Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups og Jóns mágs síns en biskup taldi að Jón og Björg væru of skyld til að hafa mátt giftast og því væri hjónaband þeirra ógilt en skyldleikinn var umdeildur og ættmenn Bjargar andmæltu því að hann væri til staðar. Björg sættist að lokum við kirkju og biskup, sjálfsagt fyrir tilstilli Jóns bróður síns.

Jón kemur mikið við skjöl á ábótaárum sínum og virðist hafa verið umsvifamikill. Hann lést í embætti 1514 og varð Eiríkur Sumarliðason þá ábóti á Þingeyrum. Jón er talinn hafa átt eina dóttur, Ólöfu, húsfreyju á Espihóli í Eyjafirði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Þingeyraklaustur". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur, 1887“.
  • „„Þingeyraklaustur". Sunnudagsblaðið, 20. mars 1966“.