Jóhann Daníelsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hljómplata þeirra Jóhanns Daníelssonar og Eríks Stefánssonar frá 1976. Jóhann er fyrir miðri mynd.

Safndiskur með söng Jóhanns Daníelssonar gefin út af Tónlistarfélagi Dalvíkur 2010

Jóhann Kristinn Daníelsson (1927-2015), kennari og söngvari á Dalvík. Jóhann var sonur Daníels Júlíussonar og Önnu Jóhannsdóttur í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal og þar ólst hann upp ásamt fjórum systkinum sínum. Jóhann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1946 og íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1949. Hann fór einnig til náms til Noregs, Jærens Folkehöjskola á Jaðri og Statens Gymnastikkskole í Ósló 1951-1952. Hann lauk söngkennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1959. Jóhann var íþróttakennari á Blönduósi og víðar 1949-1956, á Ólafsfirði 1956-1957, og stundaði söngkennslu á Dalvík 1957-1963, nema veturinn 1958-1959 sem hann var íþróttakennari í Reykjavík. Hann kenndi við Oddeyrarskóla á Akureyri 1964-1974 en fluttist þá öðru sinni til Dalvíkur með fjölskyldu sinni þar sem hann stundaði tónlistarkennslu og var m.a. formaður Tónlistarskóla Dalvíkur. Hann var síðan bókavörður við Dalvíkurskóla til 2000.[1]

Jóhann var kunnur söngvari og kom víða fram opinberlega allt frá barnæsku, ýmist einsöngvari eða í söngsveitum og kórum. Hann var heiðursfélagi í Karlakór Dalvíkur. Þrjár hljómplötur hafa verið gefnar út með söng Jóhanns. [2]. Jóhann tók virkan þátt í leiklistarstarfi á Akureyri og Dalvík um árabil og lék í fjölmörgum leikritum. Einnig fór hann með hlutverk í kvikmyndinni Landi og sonum í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar. Jóhann var manna vinsælastur í sinni sveit, samkvæmismaður, hagyrtur vel og félagi í Söltunarfálaginu svokallaða en það var félagsskapur innmúraðra gleðimanna og söngmanna og skálda og brús-spilamanna í Svarfaðardal. Í bókinni Krosshólshlátur [3]eru margar frásagnir af Jóhanni og kveðskapur eftir hann.

Enn syngur vornóttin er safndiskur með söng Jóhanns. Þar flytur hann einn eða með öðrum yfir tuttugu sönglög. Upptökurnar spanna 40 ára tímabil og gefa gott yfirlit yfir söngferil hans. Tónlistarfélag Dalvíkur gaf diskinn út 2010.

Kona Jóhanns var Gíslína Hlíf Gísladóttir (1935-2009). Börn þeirra: Anna Guðlaug (1962), Gísli Már (1967) og Aðalbjörg Kristín (1971). Fyrir átti Gíslína soninn Yngva Örn (1956).

  1. Sjá greinar um Jóhann í héraðsfréttablaðinu Norðurslóð, 39. árg. 12. tb. 2015
  2. Jóhann Daníelsson og Eiríkur Stefánsson syngja einsöng og tvísöng við undirleik Guðmundar Jóhannessonar - Tónaútgáfan 1976
  3. Hjörleifur Hjartarson 2013. Krosshólshlátur. Bóksmiðjan Selfossi, 215 bls.