Fara í innihald

Ingrida Šimonytė

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ingrida Simonyte)
Ingrida Šimonytė
Forsætisráðherra Litáens
Í embætti
11. desember 2020 – 12. desember 2024
ForsetiGitanas Nausėda
ForveriSaulius Skvernelis
EftirmaðurGintautas Paluckas
Persónulegar upplýsingar
Fædd15. nóvember 1974 (1974-11-15) (50 ára)
Vilníus, litáíska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
ÞjóðerniLitáísk
StjórnmálaflokkurFöðurlandsbandalagið
HáskóliHáskólinn í Vilníus
Undirskrift

Ingrida Šimonytė (f. 15. nóvember 1974) er litáísk stjórnmálakona og hagfræðingur og fyrrverandi forsætisráðherra Litáens. Hún er meðlimur í litáíska Föðurlandsbandalaginu.

Šimonytė var fjármálaráðherra Litáens frá 2009 til 2012 í annarri ríkisstjórn Andriusar Kubilius. Hún var kjörin á litáíska þingið (Seimas) árið 2016. Árið 2019 gaf hún kost á sér í forsetakosningum Litáens en tapaði í seinni umferð þeirra gegn Gitanas Nausėda. Šimonytė var aftur kjörin á þing árið 2020 og var í kjölfarið útnefnd forsætisráðherra í ríkisstjórn Föðurlandsbandalagsins, Frjálslyndu hreyfingarinnar og Frelsisflokksins.

Ingrida Šimonytė lauk menntaskólanámi árið 1992 og hóf síðan nám við hagfræðideild Háskólans í Vilníus.

Árið 1996 útskrifaðist Šimonytė með gráðu í viðskiptastjórnun. Tveimur árum síðar útskrifaðist hún með mastersgráðu í fjármálafræði við sama háskóla.

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Ingrida Šimonytė hefur unnið allan starfsferil sinn hjá stjórn litáíska fjármálaráðuneytisins.

Hún hóf störf sem hagfræðingur við við skattadeild ráðuneytisins með umsjón yfir skattarétti frá 1997 til 1998. Hún hlaut síðan umsjón með óbeinni skattlagningu hjá skattstofunni frá árinu 2001.

Árið 2002 var hún útnefnd skattstjóri Litáens og síðan aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálaráðuneytisins árið 2004. Hún gegndi því embætti í fimm ár.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Ráðherra og þingmaður

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 7. júli 2009 var Ingrida Šimonytė útnefnd fjármálaráðherra í annarri ríkisstjórn Andriusar Kubilius. Hún tók við af Algirdas Šemeta, sem hafði verið útnefndur framkvæmdastjóri fjárlaga og fjárhagsáætlana í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins einni viku fyrr. Šimonytė var fjármálaráðherra þar til Rimantas Šadžius tók við af henni þann 12. desember 2012.

Šimonytė var kjörin á 3. kjördæmi litáíska þingsins í fyrstu umferð í þingkosningum landsins árið 2016. Andrius Kubilius hafði áður verið þingmaður þessa kjördæmis. Šimonytė bauð sig fram í forsetakosningum Litáens árið 2019 en tapaði í seinni umferð gegn Gitanas Nausėda.

Forsætisráðherra

[breyta | breyta frumkóða]

Šimonytė var valin sem forsætisráðherraefni kosningabandalags Föðurlandsbandalagsins fyrir þingkosningar Litáens árið 2020.[1]

Þann 24. nóvember 2020 var Ingrida Šimonytė kjörin forsætisráðherra Litáens með 62 atkvæðum á litáíska þinginu.[2]

Vorið 2021 varð bylgja í komu flóttamanna yfir landamæri Hvíta-Rússlands til Litáens og stjórn Šimonytė gerði því ráðstafanir til að hefta komu innflytjenda til landsins. Með nýrri lagasetningu var stjórnvöldum auðveldað að handtaka farendur sem hefðu komið ólöglega til landsins í minnst sex mánuði, þrengt var um möguleikann á hælisveitingum í landinu, áfrýjunarréttur hælisumsækjenda var takmarkaður og heimilað var að vísa fólki brott þótt umsóknir þeirra væru enn til meðferðar. Önnur réttindi voru jafnframt takmörkuð, meðal annars rétturinn til að njóta þjónustu túlks og réttur til upplýsinga um hælisveitingaferlið.[3]

Šimonytė bauð sig aftur fram til forseta Litáens árið 2024 en tapaði í seinni umferð fyrir Gitanas Nausėda.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Lituanie: virus et inégalités sociales au menu des législatives“ (franska). Challenges. 11. október 2020. Sótt 1. mars 2023.
  2. Jūratė Skėrytė (24. nóvember 2020). „Lithuanian parliament approves Šimonytė as prime minister“ (enska). Lietuvos nacionalinis radijas ir televizija. Sótt 1. mars 2023.
  3. „La Lituanie durcit sa législation face à l'arrivée de migrants depuis la Biélorussie“ (franska). La Croix. 14. júlí 2021. Sótt 1. mars 2023.
  4. Þorgils Jónsson (26. maí 2024). „Nauseda endurkjörinn forseti Litáens“. RÚV. Sótt 28. maí 2024.


Fyrirrennari:
Saulius Skvernelis
Forsætisráðherra Litáens
(11. desember 202012. desember 2024)
Eftirmaður:
Gintautas Paluckas