Ingimar Eydal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Ingimar á hljómplötu.

Róbert Ingimar Eydal (20. október 1936 - 10. janúar 1993) var íslenskur tónlistarmaður. Hann var einn vinsælasti hljómsveitarstjóri á Íslandi og fjölhæfur tónlistarmaður. Hljóðfæri hans var píanó.

Ingimar fæddist á Akureyri árið 1936. Foreldrar hans voru Hörður Ólafur Eydal, starfsmaður Mjólkursamlags KEA á Akureyri, og Pálína Indriðadóttir húsfreyja. Ingimar hóf að spila fyrir dansi þrettán ára með Karli Adolfssyni á Hótel Norðurlandi, spilaði í Alþýðuhúsinu á Akureyri 1952-54, á Hótel KEA 1954-56, á Hótel Borg 1956-57 og í Alþýðuhúsinu 1956-63. Hann stofnaði eigin hljómsveit 1962, Hljómsveit Ingimars Eydal sem lék í Sjallanum á Akureyri um margra áratuga skeið. Meðal þekktari laga hljómsveitarinnar voru Á sjó, Vor í Vaglaskógi, Í sól og sumaryl, Hún er svo sæt og Litla sæta ljúfan góða. Hann vann með tónlistarmönnum eins og Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Helenu Eyjólfsdóttur, Þorvaldi Halldórssyni og bróður sínum Finni Eydal.

Ingimar lauk kennaraprófi frá KÍ 1957 og stundaði viðbótarnám við KHÍ. Hann kenndi við Tónlistarskólann á Dalvík 1964-66 og við Gagnfræðaskólann á Akureyri um langt árabil frá 1967.

Ingimar var varabæjarfulltrúi á Akureyri, sat í Umhverfismálanefnd Akureyrar, var formaður Akureyrardeildar Norræna félagsins, sat í stjórn Akureyrardeildar KEA, í Æskulýðsráði og Áfengisvarnanefnd, var æðstitemplar stúkunnar Brynju, þingtemplar Eyfirðinga og lengi stjórnarformaður fyrirtækja IOGT á Akureyri.[1]

Ingimar lést árið 1993 úr krabbameini. [2] Eftirlifandi eiginkona Ingimars er Ásta Sigurðardóttir sjúkraliði og eignuðust þau fjögur börn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ingimar Eydal Íslenskur músík- og menningararfur. Skoðað 20. mars, 2016
  2. Ingimar Eydal tónlistarmaður látinn Mbl. Skoðað 20. mars, 2016

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]