Ingibjörg Þorbergs

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ingibjörg Kristín Þorbergs (25. október 1927 - 6. maí 2019) var íslenskt tónskáld, söngkona og dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins.

Ingibjörg fæddist í Reykjavík og voru foreldrar hennar þau Kristjana Sigurbergsdóttir húsmóðir og Þorbergur Skúlason, skósmíðameistari.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík með klarinettuleik sem aðalgrein árið 1952 og varð þar með fyrst íslenskra kvenna til að ljúka einlekaraprófi á blásturshljóðfæri.[1] Samhliða klarinettunáminu stundaði hún einnig nám í hljómfræði, píanóleik og tónlistarsögu. Árið 1957 lauk hún tónmenntakennaraprófi frá Kennaraskólanum.

Störf og tónlistarferill[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1946 og starfaði þar við ýmis störf allt til ársins 1985. Í fyrstu starfaði hún á innheimtadeild en árið 1949 varð hún dagskrárgerðarmaður í tónlistardeild útvarpsins. Hún hafði meðal annars umsjón með þættinum Óskalög sjúklinga, var aðstoðarþulur, stjórnaði barnatíma og hafði umsjón með fjölda viðtals- og tónlistarþátta ásamt því að sinna annarri dagskrárgerð. Ingibjörg var varadagskrárstjóri og dagskrárstjóri Rásar 1 frá 1981-1985. Auk þess að starfa við Ríkisútvarpið var hún meðal annars stundakennari við Miðbæjarskólann og Breiðagerðisskóla og starfaði einnig við blaðamennsku. Hún hóf að skrifa í barnablaðið Æskuna árið 1967 og ritaði þar gítarkennslugreinar sem nutu mikilla vinsælda.[1] Hún sá einnig um tónlistargagnrýni fyrir Tímann og Vísi.[2]

Í æsku var Ingibjörg í barnakórnum Sólskinsdeildinni[1] og söng í fyrsta skipti einsöng í útvarpi aðeins 12 ára gömul. Hún kom fyrst fram opinberlega á sviði um 1950 með hljómsveitunum Smárakvartettnum og Marz bræðrum og um svipað leyti tók hún upp listamannsnafnið Ingibjörg Þorbergs. Ingibjörg söng fyrst inn á hljómplötu árið 1953 og söng inn á fjölda hljómplatna á ferli sínum. Hún var meðal annars fyrsta íslenska konan til að syngja eigið sönglag inn á hljómplötu.

Meðal þekktra laga Ingibjargar eru til dæmis lag við Aravísur Stefáns Jónssonar og lag hennar við kvæði Kristjáns frá Djúpalæk, Hin fyrstu jól, sem var fyrsta íslenska jólalagið fyrir utan sálma, sem kom út á plötu en það var útgefið árið 1954.[3]

Ingibjörg hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2003 og var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2008 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Glatkistan.com, „Ingibjörg Þorbergs (1927-2019)“ (skoðað 20. nóvember 2019)
  2. 2,0 2,1 Ismus.is, „Ingibjörg Þorbergs“, (skoðað 20. nóvember 2019)
  3. Lára Ómarsdóttir, „Ingibjörg Þorbergs látin“, ruv.is, (skoðað 20. nóvember 2019)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]