Ilmenít

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ilmenít frá Noregi.

Ilmenít (FeTiO3) er veikt segulmögnuð járnsvört eða stálgrá steind sem finnst í myndbreyttu bergi eða djúpbergi. Nafnið dregur steindin af fundarstað sínum í Ilmenski-fjöllum, nærri Miass í Rússlandi. Ilmenít er mest unnið úr fjörusandi. Það er úr járn-títanoxíði á kristölluðu formi.

Unnið ilmenít er mest notað sem hráefni í litarefni. Afurð þeirrar vinnslu er títandíoxíð sem er afgerandi hvítt á litinn og notað sem grunnur í hágæða málningu. Í fjörusandi finnst ilmenít yfirleitt sem hringlaga agnir sem eru um 0,1 - 0,2 mm í þvermál.

Tunglilmenít[breyta | breyta frumkóða]

Ilmenít finnst í bergi á Tunglinu og árið 2005 notaði NASA Hubble-geimsjónaukann til að finna þar svæði sem innihalda steindina í ríkum mæli. Það gæti verið mikilvægt ef horft er til hugsanlegrar tunglstöðvar í framtíðinni. Ilmenítið gæti verið uppspretta járns og títans sem byggingarefna og einnig væri hægt að vinna úr steindinni súrefni.