ISNET93

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd sem lýsir því mjög gróflega, hvernig hnitakerfið liggur yfir Íslandi

ISNET93 (eða ISN93) er viðmiðunarhnitakerfi vegna GPS mælinga sem tekið var upp fyrir Ísland af Landmælingum Íslands árið 1993. Kerfið er hornsönn Lambert-keiluvörpun. Mælikvarði vörpunarinnar er 1:1 á breiddargráðunum 64°15' og 65°45' norður. Skurðpunktur ásanna er hornréttur í 65° norður og 19° vestur, og hefur sá skurðpunktur hnitin (500000, 500000), gefið upp á hnitaforminu (norður, austur), og hnitin eru í metrum talin, og fara hnitin minnkandi til vesturs og suðurs.

Viðmiðunarhnitakerfið byggist á jarðmiðjukerfinu ITRF93.6 (enska: International Terrestrial Reference Frame 1993.6), sporvölunni GRS-80 (enska: Geodetic Reference System 1980'), og niðurstöðum GPS mælinga sem framkvæmdar voru árið 1993. Þetta þýðir að Z-ás kerfisins fellur saman við snúningsás jarðar, en X- og Y-ásarnir spanna miðbaugsflötinn. X-ásinn liggur í fleti Greenwich núllbaugsins, en Y-ásinn er hornréttur á X-ásinn til austurs. GPS mælingarnar fóru fram á 119 mælistöðvum, sem mynda ÍSNET93, og er þeim dreift út um allt land. Jarðrek má greina með því að skoða tilfærslu þessarra punkta frá upphaflegum mæligildum, og sökum jarðreks og annarra jarðfræðilegra og stjarnfræðilega þátta þarf að endurnýja grunnstöðvanetið á nokkurra ára fresti. Næsta íslenska grunnstöðvanetið eftir ISNET93 er ISNET05.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]