Fara í innihald

IBM Personal Computer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá IBM PC 5150)
IBM PC

IBM Personal Computer, betur þekkt sem IBM PC, var einkatölva sem IBM setti á markað 12. ágúst 1981 og náði fljótt gríðarlegum vinsældum. Tölvan var arftaki fartölvunnar IBM 5100 og var upphaflega kölluð IBM 5150 þótt hún væri í raun tæknilega óskyld þeirri tölvu. Hún var tilraun IBM til að komast inn á ört vaxandi örtölvumarkaðinn þar sem voru ríkjandi tölvur á borð við Commodore PET, Atari 800, Apple II, TRS-80 og ýmsar gerðir sem búnar voru stýrikerfinu CP/M. Vegna þess hve mikið lá á að koma tölvunni á markað var ákveðið að notast við tilbúna íhluti frá öðrum framleiðendum í stað þess að þróa nýja hjá IBM. Tölvan var með nýjum átta bita 8088 örgjörva frá Intel auk átta bita gagnabrautar og búin stýrikerfinu IBM PC-DOS sem IBM þróaði í samstarfi við Microsoft og var í raun sérmerkt útgáfa MS-DOS.

Tölvan var hönnuð af hópi verkfræðinga undir stjórn Don Estridge í Boca Raton í Flórída. Upphaflega áætlunin, að markaðssetja tölvuna sem heimilistölvu, reyndist mistök og tölvan náði fyrst og fremst vinsældum sem skrifstofuvél. IBM PC-vélar náðu gríðarlegum vinsældum og olli einkatölvubyltingu hjá fyrirtækjum þar sem áður voru ríkjandi stórtölvur og meðalstórar bókhaldsvélar. IBM PC varð þannig þekktasta vörumerki tölva af þessari stærð allan 9. áratug 20. aldar. Það að tölvan var að mestu gerð úr íhlutum frá öðrum framleiðendum en IBM og með grunnstýringarkerfi sem hægt var að endurskapa með löglegum hætti, gerði það að verkum að aðrir framleiðendur gátu framleitt tölvur sem nýttu sér sama hugbúnað og IBM-tölvan. Þessar tölvur, sem voru kallaðar IBM PC-samhæfðar tölvur eða PC-klónar, náðu líka talsverðum vinsældum á heimilistölvumarkaðnum.

Arftakar hins upphaflega IBM PC voru IBM Personal Computer XT, eða 5160, sem kom út 1983, og öflugri IBM Personal Computer/AT sem kom út 1984 með nýjan örgjörva; Intel 80286. Að auki byggði IBM á þessari vinnu með IBM Portable 1984, sem var í grundvallaratriðum XT-tölva í töskukassa, og IBM PC Convertible, fyrstu kjöltutölvu fyrirtækisins sem gekk samt illa í sölu. Báðar þessar tölvur notuðust við Intel 8088-örgjörvann. Enn ein PC-tölvan, IBM PCjr, sem ætluð var skólum og kom út 1984, seldist líka illa.