Hvammsvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hvammsvík

Hvammsvík er jörð í Kjósarhreppi. Hvammur er landnámsjörð samkvæmt Landnámabók en Hvammsvíkur er fyrst getið sem hjáleigu á sautjándu öld. Breski og bandaríski herinn höfðu aðstöðu á jörðinni í síðari heimstyrjöldinni og byggðu þar töluvert magn mannvirkja, svo sem bragga, höfn, skotfærageymslur, vöruskemmur, aðstöðu til íþróttaiðkunar og ýmislegt fleira. Á jörðinni eru um 80 fornminjar á fornminjaskrá.[1] Jarðirnar eru um 600 hektarar að stærð og ná frá sjó í innanverðum Hvalfirði upp í 400 metra yfir sjó á Reynisvallahálsi. Á 8. og 9. áratuginum rak Skúli Pálsson umsvifamikið fiskeldi á jörðinni þar sem jarðhitinn kom í góðar þarfir. Hitaveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) keypti jörðina 1996 og var jörðin þá nýtt til almennrar útivistar fyrir almenning. Þar var níu holu golfvöllur, lítil tjörn sem hægt var að veiða í, aðstaða til kajaksiglingar, kræklinur í fjörunni og mikið fuglalíf, ásamt tjaldstæði, fullbúinni grillaðstöðu og aðstöðu til að matast, innan og utandyra.[2] Árið 2011 seldi Orkuveitan jörðina til Skúla Mogensen athafnamanns fyrir 230 milljónir króna.[3] Skúli sagði um söluna að hann hlakkaði "til að fást við þetta skemmti­lega verk­efni. Byggja þarna upp og rækta og nýta jörðina fyr­ir framtíðar ferðamanna- og úti­vist­ar­svæði.“[4] Árið 2016 var lokað fyrir umferð almennings um Hvammsvíkurveg sem liggur að Hvammsvík og Hvammi.

Jarðhiti[breyta | breyta frumkóða]

Hvammsvíkurvegur

Á jörðunum er jarðhiti og þóttu þær áður henta vel til útivistar og skógræktar fyrir íbúa Reykjavíkur. Í síðari heimstyrjöldinni hlóðu bandarískir hermenn heita laug í fjöruborðinu við Bátsmýri, sem enn má sjá leifar af. Síðar hlóð nýr jarðeigandi aðra laug sem enn stendur en hefur hún staðið tóm síðan 2013. Skúli Mogensen, eigandi jarðanna, sagði að lauginni hefði þurft að loka vegna slæmrar umgengni.[5] Síðar sagði hann þó að takmarka þyrfti aðgengi vegna framkvæmda.[6]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 1. ágúst 2016. Sótt 9. júní 2017.
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2017. Sótt 9. september 2017.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2017. Sótt 9. september 2017.
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2017. Sótt 9. september 2017.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. ágúst 2017. Sótt 9. júní 2017.
  6. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/06/natturulaug_stendur_tom/
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.