Fara í innihald

Hryggjarstykki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hryggjarstykki var handrit sem innihélt sögu Noregskonunga og var ritað af Eiríki Oddssyni um 1150-1170. Það er nú týnt. Efni Hryggjarstykkis var byggt að hluta á munnlegum frásögnum fólks sem upplifði þá atburði sem hún segir frá, þ.e. sögu Haraldar gilla, Magnúsar blinda og annarra þeirra sem þátt tóku í norska innanlandsófriðnum frá 1130. Hlutar Hryggjarstykkis voru teknir upp í önnur rit, svo sem Heimskringlu og Morkinskinnu.

Snorri Sturluson segir í Heimskringlu:

Hallur sonur Þorgeirs læknis Steinssonar var hirðmaður Inga konungs og var viðstaddur þessi tíðindi. Hann sagði Eiríki Oddssyni fyrir en hann reit þessa frásögn. Eiríkur reit bók þá er kölluð er Hryggjarstykki. Í þeirri bók er sagt frá Haraldi gilla og tveimur sonum hans og frá Magnúsi blinda og frá Sigurði slembi allt til dauða þeirra. Eiríkur var vitur maður og var í þenna tíma löngum í Noregi. Suma frásögn reit hann eftir fyrirsögn Hákonar maga, lends manns þeirra Haraldssona. Hákon og synir hans voru í öllum þessum deilum og ráðagerðum. Enn nefnir Eiríkur fleiri menn er honum sögðu frá þessum tíðindum, vitrir og sannreyndir, og voru nær svo að þeir heyrðu eða sáu atburðina, en sumt reit hann eftir sjálfs sín sýn eða heyrn.