Fara í innihald

Hrappseyjarprentsmiðja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hrappseyjarprent)
Atli, eftir Björn Halldórsson, var meðal þeirra rita sem prentuð voru í Hrappseyrarprentsmiðju og gefin þar út árið 1780

Hrappseyjarprentsmiðja var prentsmiðja og bókaútgáfa sem starfrækt var í Hrappsey á Breiðafirði 1773-1794 og var fyrsta íslenska prentsmiðjan sem prentaði eingöngu veraldleg rit en ekki guðsorðabækur.

Upphaf prentsmiðjunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Ólafur Ólafsson Olavius fékk konungsleyfi til að stofna prentsmiðju í Skálholtsbiskupsdæmi með því skilyrði að þar yrði ekki prentað guðsorð, á því átti Hólaprentsmiðja einkarétt. Ólafur hafði áður látið prenta ýmis rit í Kaupmannahöfn, meðal annars fyrstu útgáfu Njálu. Ólafur fékk lán til tækjakaupa hjá Boga Benediktssyni í Hrappsey, sem jafnframt átti hlut í verksmiðjunni og var hún reist í eynni. Ári síðar keypti Bogi hlut Ólafs og átti prentsmiðjuna lengst af einn og rak ásamt náfrænda sínum Guðmundi Ólafssyni en Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalamanna, stýrði hins vegar útgáfunni að mestu. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt að Bogi hafi keypt prentsmiðjuhúsið á góðu verði eftir að maður hafði hengt sig í því og sumum þótti reimt þar. Dætur Boga áttu að hafa reynt eitt sinn að sofa þar, þegar gestanauð var mikil á Stafafelli en varð ekki svefnsamt.

Frá Hrappseyjarprentsmiðju komu bækur af ýmsu tagi, svo sem Alþingisbækur Íslands, fræðslurit ýmiss konar, sum skrifuð af Magnúsi, sem var einn helsti frumkvöðull upplýsingarstefnunnar á Íslandi, Atli eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, Búnaðarbálkur Eggerts Ólafssonar, kvæðabækur og fleira. Jón Þorláksson, síðar prestur á Bægisá, vann um tíma við prentsmiðjuna og gaf út bækur sínar þar. Fyrsta íslenska tímaritið, Islandske Maanedstidender, var líka gefið út í Hrappsey á árunum 1773-1776. Var það á dönsku og gefið út sem umbun til þeirra dönsku styrktarmannanna sem hjálpuðu til við stofnun og rekstur prentsmiðjunnar. Guðmundur Ólafsson, náfrændi og uppeldisbróðir Boga úr Breiðafjarðareyjum, starfaði einnig við prentsmiðjuna en hann skrifaði upp mikið af fornum ritum til útgáfu. Afi þeirra Boga, Bjarni Bjarnason var annálaritari og lögréttumaður í Langey, átti gamalt og merkilegt handrit sem síðar komst í hendur Árna Magnússonar handritasafnara. „Auðugur, skýr og margfróður. Talaði nokkur erlend tungumál“, segir í Dalamönnum en mæður þeirra Ólafs og Boga voru systur, fæddar með árs millibili.[1]

Hrappseyjarprentsmiðja var seld Landsuppfræðingarfélaginu árið 1794 og flutt suður í Leirárgarða í Borgarfirði.

  • Jón Helgason (prófessor) (1928). Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. Hið íslenzka fræðafélag.
  • Heimildir: Stríðshjálp 1681, 1703, ÍÆ.I.130/158, Lrm., Esp.4511, Æ.A-Hún.54, DI. I, Dalamenn, Sýsl.II.48
  1. Heimildir: Stríðshjálp 1681, 1703, ÍÆ.I.130/158, Lrm., Esp.4511, Æ.A-Hún.54, DI. I, Dalamenn, Sýsl.II.48