Hof í Hjaltadal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hof er bær í Hjaltadal í Skagafirði, landnámsjörð Hjalta Þórðarsonar að sögn Landnámabókar, og þar segir líka að á Hofi hafi verið hin fjölmennasta og ágætasta erfidrykkja á landinu, sem synir Hjalta héldu eftir föður sinni.

Á Hofi er mikið af fornminjum sem ekki hafa verið rannsakaðar svo neinu nemi en svo virðist sem þar hafi verið stórbýli en búseta hafi lagst þar af á 11. öld og bærinn fluttur í Hóla, sem eru örskammt frá Hofi. Byggð virðist hafa verið stopul á Hofi allt til 1827 en þá var reist þar hjáleiga frá Hólum.

Bærinn stendur á háum hól og segir sagan að þar hafi virki Hjaltasona verið.