Hjaltastaðahvammur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hjaltastaðahvammur er bær í hjarta Skagafjarðar, nánar tiltekið austan Héraðsvatna í Blönduhlíð í Akrahreppi. Hjaltstaðahvammur á land að Frostastöðum að norðan, fjallsbrún að austan, Grænumýri að sunnan og Hjaltastöðum að vestan. Landstærð er 149 hektarar, þar af 10,5 hektarar tún. Frá Hjaltastaðahvammi eru 11 km til Varmahlíðar, 32 km til Hóla og Sauðárkróks, 95 km til Akureyrar og 300 km til Reykjavíkur.

Landnámsjörð og kirkjustaður til forna[breyta | breyta frumkóða]

Í Landnámabók segir „Gunnólfur hét maður, er nam land mili Þverár og Glóðafeykisár, og bjó í Hvammi“. Þverá ber enn sitt forna nafn og fellur niður milli Þverár og Frostastaða en Glóðafeykisá heitir nú Hvammsá og er á milli Flugumýrarhvamms og Flugumýrar. Tvær jarðir í landnámi Gunnólfs bera hvammsnöfn, þ.e. Hjaltastaðahvammur og Flugumýrarhvammur (Litli-Hvammur 1388). Hjaltastaðahvammur er nefndur Miðhvammur í elstu heimild fornbréfasafns. Land og bæir Hjaltastaðatorfunnar eru í miðju landi Gunnólfs og mega kallast í víðum hvammi. Hjaltastaðahvammur stendur efstur af bæjum torfunnar á skjólgóðum stað. Sterk rök hníga að því að Hjaltastaðahvammur hafi verið aðsetur landnámsmannsins og höfuðból landnámsins fyrstu tvær aldir Íslandsbyggðar.

Vorið 1956 var hafist handa við byggingu steinsteypts íbúðarhúss rétt við gamla bæinn sem þá var að falli kominn. Þegar verið var að handgrafa fyrir kjallara undir norðurenda hússins kom í ljós veggjarhleðsla úr grjóti sem lá norðan frá inn í grunninn. Þar komu í ljós tvær grafir með stuttu millibili og er beinagrindurnar nú varðveittar á Þjóðminjasafninu. Ljóst var að þetta voru kristnar grafir. Beinin reyndust af karli og konu en yfir beinunum hafi verið þykkt lag af skriðumöl. Einnig fundust ummerki frá húsi sem talið er að sé kirkja. Allt bendir því til að kirkjugarður og kirkjustæði frá 11. eða 12. öld liggi norður frá þar sem bærinn stendur í dag og hafa menn af þessu dregið eftirfarandi ályktanir.

Hjaltastaðahvammur hefur í öndverðu verið landnámsjörð og heitið Hvammur. Bærinn hefur eyðst af skriðuföllum og orðið óbyggilegur um sinn og hafi verið fluttur um set þangað sem nú eru Hjaltastaðir. Hjaltastaðir hétu áður Syðstihvammur og Grænumýri sem liggur sunnan við Hjaltastaðahvamm bar áður nöfnin Hjaltastaðakot og enn áður Kothvammur.

Bær og umhverfi[breyta | breyta frumkóða]

Svo virðist sem bæjarstæðið hafi jafnan verið á sama stað og þrátt fyrir ógn af skriðuföllum hefur það ekki verið fært enda er bæjarstæðið fallegt og sérlega veðursælt. Auk þess er mikið og gott útsýni yfir sveitina þar sem bærinn stendur í uppi í hlíðum Hjaltastaðafjalls. Í dag er skógrækt farin að setja svip sinn á á umhverfi bæjarins. Bæjarlækur fellur norðan við bæinn en hann á upptök sín í Rauðagili. Sunnan við bæinn sprettur upp lind sem aldrei frýs en úr henni fæst afbragðs vatn. Í henni er jafnt rennsli árið um kring, þrátt fyrir frosthörkur og þurrka. Líklegt verður að teljast að lindin og gott aðgengi að vatni hafi haft áhrif á það að bæjarstæðið hafi ekki verið flutt.

Bæjarklöpp rís skammt norður og upp frá bænum sem er í daglegu tali kölluð Klöppin. Af henni er mikið og gott útsýni. Minjar gamalla fjárhúsa auk annara tófta eru upp frá íbúðarhúsinu. Auk þess sem minjar eru um fjárhús og hesthúskofa á svokölluðu Gerði sem er nokkuð norður frá bænum.

Stóri-Einbúi er há klettaborg sem stendur stök norður og vestan út frá túnum Hjaltastaðahvamms. Á Stóra-Einbúa sem í daglegu tali er nefndur Einbúi mætast landamerki Hjaltastaðahvamms, Grænumýrar og Frostastaða. Litli-Einbúi er lítill klapparhóll sunnan við Stóra-Einbúa. Á Einbúanum eru einkennilegir garðar eða merki um mannvirki sem í landamerkjabréfi frá 1883 eru taldir hlaðnir af fornmönnum. Trú er á að huldufólk haldi til í Einbúanum og nokkrar sögur þar um.

Einu sinni var maður á ferð framan Þormóðsholtið og ætlaði út í Þverá. Hann var á ferð að vetri til í logndrífu og var frekar seinn á ferðinni. Hann viltist á leið sinni og vissi ekki hvar hann var staddur. Þegar hann hafði gengið lengi kemur hann auga á ljós í glugga og varð við það glaður og hugði sig vera að koma heim að bæ. Skundar hann í átt að ljósinu en um leið og hann kemur að glugganum hnýtur hann niður og missir sjónar af ljósi og glugga. Þegar hann stóð upp sá hann hvorki ljós né glugga heldur áttaði sig á því að hann var staddur undir Einbúanum og komst svo heim til bæja.

Margir hafa talið sig sjá ljós koma frá Einbúanum og þessi saga er ekki eina sagan þar sem menn í villu í þoku eða hríð hafa runnið á ljós frá honum dottið niður og svo áttað sig á hvar þeir voru. Einbúinn er þannig staðsettur að þeir sem eru á leið um sveitina eða eru leið á milli bæja lögðu oft leið sína fram hjá honum. Einbúinn stendur í dag nokkru austan við núverandi þjóðveg.

Sjónarhóll er há og áberandi klettaborg sem stendur ofan við Gerðið og norðar og austur upp af Klöppinni og bænum. Þaðan er sérlega gott útsýni yfir nágrenni Hjaltastaðahvamms. Á Sjónarhólnum stendur varða ein og hefur staðið þar lengi. Varðan sérst ágætlega frá bænum og hefur líklega verið hlaðin til gamans. Norður frá Sjónarhólnum er svokölluð Klauf en um hana rennur lækur úr Stóraskriðugili og er á merkjum Hjaltastaðahvamms og Frostastaða. Í skjólsælum hvammi sunnan við Klaufina og Stóruskriðulækinn má sjá marka fyrir tóftum en ekki er nákvæmlega vitað hvers konar hús voru þar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}