Hillebrandtshús
Hillebrandtshús var reist á syðri bakka Blöndu árið 1877 af Friðriki Hillebrandt og er elsta timburhúsið á Blönduósi. Húsið er í eigu Húnabyggðar (áður Blönduósbæjar) en bærinn hóf endurgerð á húsinu árið 1994 og lauk henni að utan árið 1996 en innan árið 2000.
Blönduósbær hefur nýtt húsið fyrir allskyns sýningar, sögusýningu árið 1999 og árið 2000 sýninguna Refsingar á Íslandi sem þeir héldu í samvinnu við byggðasafnið á Reykjum í Hrútafirði. Í dag er þar Hafíssetrið sem er með sýningu um hafís.
Hillebrandsthús hefur verið talið vera elsta timburhús Íslands. Það byggðist á þeim sögnum að húsið hafi staðið á Skagaströnd í 130 ár áður en það var flutt til Blönduósar. Endurgerð á húsinu leiddi það hins vegar í ljós að ekki væri um sama húsið að ræða heldur væri Hillebrandtshús byggt úr viðum eldra húss eða húsa að miklu leyti.
Saga Hillebrandtshúss
[breyta | breyta frumkóða]Friðrik Hillebrandt var fyrsti eigandi hússins en hann reisti það með þeim tilgangi að hafa þar útibú Hólanesverslunar. Síðar komst það í eigu Jóhanns Möllers sem notaði húsið sem vörugeymslu og pakkhús og kallaðist húsið þá Möllerspakkhús. Árið 1916 urðu Magnús Stefánsson, kaupmaður á Blönduósi, og Jón S. Pálmason, bóndi á Þingeyrum, eigendur hússins. Árið 1940 selja þeir Magnús og Jón húsið Birni Einarssyni, trésmiði frá Síðu, en hann innréttar íbúð í vesturhluta þess og hefur svo smíðaverkstæði í hinum hlutanum. Björn Einarsson, Hallbera Jónsdóttir kona hans og afkomendur búa síðan í húsinu til 1992 en þá kaupir Blönduósbær það.[1]