Hið íslenska töframannagildi
Hið íslenska töframannagildi er íslensk félagasamtök töframanna. Samtökin nefna 29. febrúar 2007 sem stofndag sinn þó sá dagur sé ekki til í tímatali.
Tilgangur félagsins er að vera vettvangur áhugafólks um töfra og töfrabrögð, að auka áhuga á töfrum og töfrabrögðum í samfélaginu og að bæta þekkingu og færni félagsmanna í töfrabrögðum. Fundir eru haldnir einu sinni í mánuði og þar er farið yfir sviðið um allt sem tengist töfralistinni. Félagsmenn sýna einnig ýmis töfrabrögð á fundum, en hver töframaður sýnir á eigin forsendum.
HÍT er hluti af Hinu alþjóðlega bræðralagi töframanna.
Stofnfélagar HÍT eru eftirfarandi töframenn: Jón Víðis Jakobsson, Gunnar Kr. Sigurjónsson, Baldur Brjánsson, Bjarni Baldvinsson, Magnús Böðvarsson, Pétur G. Finnbjörnsson, Björgvin Franz Gíslason, Valdemar Gestur Kristinsson, Lárus Guðjónsson, Ingólfur Geirdal, Pétur Þorsteinsson og Sigurður Helgason.
Árlega heldur HÍT töfrasýningu fyrir almenning, þar sem aðalsýnandi er erlendis frá.