Hestur (Færeyjum)
Hestur eða Hestey (færeyska: Hestur, Hestoy) er eyja í miðjum Færeyjum, sunnan og vestan við Straumey og norðan við Sandey. Hún er aflöng og mjó. Hún er hálendust nyrst og þar eru Eggjarók og Múlin, bæði 421 metrar, og fuglabjörg eru á vesturströnd eyjarinnar, þekktast þeirra er Álvastakkur. Fjögur lítil vötn eru á eynni og heitir það stærsta Fagradalsvatn.
Aðeins eitt þorp er á Hesti og er það samnefnt eynni. Það er á austurströnd eyjarinnar, andspænis Velbastað á Straumey og ferjuhöfninni Gömlurétt. Þar voru 27 íbúar 1. janúar 2011 en voru 51 árið 2001. Áður fyrr bjuggu oft um 100 manns á eynni. Enginn skóli er nú starfræktur þar því ekkert barn er þar á skólaaldri. Hestur var áður sérstakt sveitarfélag en sameinaðist sveitarfélaginu Þórshöfn 1. janúar 2005.
Talið er að elsta byggðin á eynni hafi verið á suðurenda eyjarinnar, þar sem heitir Hælur. Þar er sólríkt og gott ræktarland en engin lending og hefur byggðin því flust þangað sem hún er nú. Fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur eyjarskeggja. Árið 1919 fórust tveir bátar og með þeim helmingur allra fullorðinna karlmanna á eynni. Á Hesti er einnig stunduð sauðfjárrækt og fuglatekja var mikilvæg aukabúgrein áður fyrr. Hún var þó hættuleg því mikið grjóthrun er í björgunum og á 19. öld hlupu mörg björg fram.
Ferja gengur á milli Hests og Straumeyjar einu sinni til tvisvar á dag.