Henri Matisse

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Henri Matisse árið 1913.

Henri Matisse (31. desember 18693. nóvember 1954) var franskur myndlistarmaður sem er þekktur fyrir málverk í sterkum litum og mjúk, flæðandi form. Auk málverksins fékkst hann við teikningu, prentmyndagerð og höggmyndalist. Hann telst til póstimpressjónistanna. Hann var leiðtogi hóps málara sem fékkst við fauvisma og taldi einnig Georges Braque, André Derain, Raoul Dufy og Maurice Vlaminck. Hann er, ásamt Pablo Picasso, álitinn sá listamaður sem átti stærstan þátt í róttækri þróun myndlistar á fyrstu áratugum 20. aldar og upphafi nútímalistar.

Frá 1900 til 1905 varð hann frægur fyrir litsterk málverk og var talinn til fauvista („villidýranna“), en eftir 1906 þróaði hann strangari stíl með flötum fígúrum og mynstrum. Árið 1917 flutti hann frá París til Nice í Suður-Frakklandi og þróaði þar frjálslegri stíl. Á 3. áratugnum var hann hylltur sem fulltrúi klassískra hefða í franskri málaralist. Árið 1939 skildi hann við eiginkonu sína, Amélie, sem grunaði hann um að eiga í sambandi við aðstoðarkonu sína, Lydiu Délectorskayu. Eftir að hann var skorinn upp við kviðarholskrabbameini árið 1941 átti hann erfiðara með að mála. Hann tók þá að gera klippiverk með einföldum formum úr lituðum pappír með aðstoð Lydiu. Hann lést úr hjartaáfalli 84 ára gamall.

Henri Matisse skildi eftir sig mikið magn verka eftir yfir hálfrar aldar feril. Meðal þekktustu verka hans eru Le bonheur de vivre frá 1906 (Barnes Foundation), La Danse frá 1909 (Museum of Modern Art) og L'Atelier Rouge frá 1911 (Museum of Modern Art).

  Þetta æviágrip sem tengist Frakklandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.