Fara í innihald

Hefæstos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hefaístos)
Hefæstos hlekkjar Prómeþeif.

Hefæstos eða Hefaistos er guð eldsins í grískri goðafræði, bæði þess sem birtist í náttúruöflunum, eldingum og eldfjöllum, og eldsins, sem er skapandi kraftur allrar menningar. Hann starfar sem eldsmiður á Ólympos og býr til vopn og skrautgripi í smíðahöll sinni, bæði handa guðunum og dauðlegum mönnum.

Hefæstos var sonur Seifs og Heru. Þegar Hera sá, að sveinninn var heldur ófélegur ásýndum, kastaði hún honum út yfir þröskuld himinsins og hrapað Hefæstos þá í hafið. En Þetis og aðrar sjávargyðjur tóku við honum og hlúðu að honum.

Að ytri sýn er Hefæstos burðamikill og vöðvastæltur smiður, en hann er fótlami og ber þannig alltaf minjar byltu þeirrar er hann hlaut nýfæddur. Á samkundum hinna ódauðlegu guða vekur hann oft hlátur þegar hann er á ferli á meðal þeirra haltrandi, másandi og blásandi.

Svo bar til eitt sinn í gildi guðanna, að móðir hans deildi við Seif og var illt í skapi. Þá mælti Hefæstos blíðum orðum til hennar og rétti henni tvíker, jós síðan ódáinsvíni af skapkerinu og skenkti hinum guðunum. Kom þá upp óstöðvandi hlátur með hinum sælu guðum, þegar þeir sáu hann haltra um höllina.

Hefæstos var kvæntur Afródítu. Varð hún afhuga hinum óásjálega smið og felldi ástarhug til Aresar.

Aþenuborg var eini staðurinn á Grikklandi, þar sem Hefæstos var tignaður til muna. Stafaði það vitanlega af því, hve mikið kvað að handiðnum og hvers konar iðnaði þar í borg. Var því eðlilegt, að hann væri dýrkaður þar jafnframt hagleiksgyðjunni Aþenu.

Listamenn hafa sýnt Hefæstos sem þrekvaxinn, skeggjaðan öldung, í stuttum kufli með strúthúfu á höfði, svo sem var búnaður handiðnamanna.

  • Jón Gíslason, Goðafræði Grikkja og Rómverja