Harstad
Harstad er borg og bæjarfélag í Troms og Finnmerkur-héraði í Noregi með um 25.000 íbúa (2017). Borgin er einnig sú þriðja stærsta í Norður-Noregi en hún er staðsett um 250 km norðan við Heimskautsbaug. Borgin fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 2004.
Landafræði
[breyta | breyta frumkóða]Bæjarfélagið er staðsett á tveimur eyjum í sunnanverðu Troms héraði og er stærsti hluti þess staðsettur á Hinnøya sem er stærsta eyja við strendur Noregs (þrjár eyjar á Svalbarða eyjaklasanum eru stærri). Norðurhluti bæjarfélagsins er staðsettur á suðurhluta Grytøya sem er 53 ferkílómetrar að stærð. Harstad liggur að Bjarkøy bæjarfélaginu í norðri, Kvæfjord í vestri og Tjeldsund (í Nordland héraði) í suðri. Í suðaustri tengir Tjeldsund brúin Hinnøya við Skånland og við meginlandið yfir Tjeldsunded. Í norðaustri er Vågsfjorden þar sem Harstad deilir vatnasvæði með Ibestad. Borgin sjálf er staðsett á norðaustanverðri Hinnøya. Hún er eina borgin á eyjunni og er gjarnan þekkt sem Vågsfjordens perle (eða perla Vogsfjarðar).
Bæjarfélagið samanstendur af nokkrum smáeyjum eins og Arnøya, Gressholman, Kjeøya, Kjotta, Kjottakalven, Maga, Rogla, Lille Rogla og Akerøya.
Hæsta fjall á svæðinu er Sætertinden sem er 1095 metra yfir sjávarmáli. Hann er staðsettur nálægt Sandtorg á Hinnoya. Nupen fjall sem er 412 m hátt er staðsett í norðvestanverðu bæjarfélaginu á bæjamörkum við Kvæfjord.
Olíuiðnaðurinn í Norður-Noregi er staðsettur í Harstad, en skipasmíðaiðnaður og annar iðnaður er einnig til staðar í borginni og er mikilvægur fyrir hagkerfið. Harstad og aðliggjandi svæði hafa venjulega verið á meðal blómlegustu landbúnaðarhéraða Norður-Noregs en þar er jarðvegur frjór og hentar vel til landbúnaðar.
Loftslag og birta
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir að vera staðsett norðan við heimskautsbaug, er loftslag í Harstad milt heimskautaloftslag, þar sem sumur eru svöl en vetur mildir. Í Harstad verða veturnir ekki jafn harðir og á öðrum svæðum norðan heimskautsbaugs. Vetur eru þvert á móti mildari heldur en í öðrum helstu borgum sem eru staðsettar 25-30 gráðum sunnar á norðuhveli jarðar, eins og Beijing, Chicago og Toronto. Sumur í Harstad eru köld og hitastig fer sjaldnast yfir 22 °C. Meðalhiti ársins er 3,9 °C (1961-90) og meðalúrkoma ársins er 850 mm. Hæðarkerfi valda því að hitastig að vetri getur farið niður í -15 °C og sumarhiti getur orðið 27 °C.
Miðnætursólin baðar borgina í ljósi yfir sumarmánuðina frá 22. maí – 18. júlí. Ljósaskipti eiga sér stað á nokkurra klukkustunda tímabili þegar sólin fer rétt undir sjóndeildarhringinn, þannig að ekkert myrkur er frá því snemma í maí og fram í byrjun ágúst. Heimskautanóttin, þegar sólin er alltaf undir sjóndeildarhringnum stendur frá 30. nóvember til 12. janúar. Um þetta leyti eru nokkrar klukkustundir af dagsbirtu í kringum hádegið og verður himinn þá oft litríkur í suðri. Í lok janúar lengir daginn sífellt og verður tólf tímar í mars og átján tímar í apríl. Harstad er staðsett í miðju norðurljósabeltinu og sjást norðurljósin oft á heiðskírum nóttum en þó ekki að sumri vegna birtunnar.